Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

09.02.2018 - 25.02.2018

PyeongChang 2018

Vetrarólympíuleikarnir árið 2018 fara fram...
10.03.2018 - 10.03.2018

Ársþing HSK 2018

Ársþing Héraðssambandsins Skarphéðins verður...
24

Ákvæði um dómstóla í lögum ÍSÍ

4. kafli Dómstólar ÍSÍ

4.1 Dómstólaskipan og sameiginleg ákvæði.

20. grein Dómstigin.

20.1   Dómstólar samkvæmt lið 20.2 og 20.3 nefnast einu nafni Dómstólar ÍSÍ og skulu þeir hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar og sem varða lög og reglur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sérsambanda, héraðssambanda, íþróttabandalaga, aðildarfélaga eða einstakra iðkenda eftir því sem við á en á þessum lögum og reglum skulu Dómstólar ÍSÍ byggja niðurstöður sínar. Sérsamböndum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er þó heimilt að ákveða í lögum sínum að viðkomandi sérsamband hafi sérstaka dómstóla, undirdómstig og áfrýjunardómstig, innan viðkomandi sambands.

Sérsamband telst heyra undir dómstóla ÍSÍ þar til lagabreyting sem tiltekur að viðkomandi sérsamband hafi tekið upp eigið dómsstólakerfi, hefur verið staðfest af ÍSÍ. Dómstólar þeirra sérsambanda sem taka upp eigið dómstólakerfi skulu lúta dómstólareglum viðkomandi sérsambands og skulu öll ágreiningsmál er varða þá íþróttagrein rekin fyrir viðkomandi sérsambandsdómstólum. Lög þessi um dómstólaskipan skulu þó vera þeim reglum til fyllingar, eftir því sem við getur átt.

20.2   Dómstóll ÍSÍ er fyrsta dómstig í málum sem upp koma innan íþróttahreyfingarinnar, nema viðkomandi sérsamband hafi sérstakan dómstól sbr. 1.mgr. Dómstóll ÍSÍ er þó alltaf fyrsta dómstig í málum er varða brot á 44. eða 45. grein laga ÍSÍ.

20.3   Áfrýjunardómstóll ÍSÍ er æðsti dómstóll innan íþróttahreyfingarinnar.

20.4   Dómstólar ÍSÍ skulu hafa aðsetur á skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík.  ÍSÍ skal á skrifstofu sinni halda skrá yfir þau sérsambönd sem hafa eigin dómstóla. Sérsambönd skulu tilkynna án tafar allar breytingar sem verða á dómstólaskipan innan sambandsins, en skrá sú sem haldin er á skrifstofu ÍSÍ telst alltaf lögfull sönnun á því hvar eigi að reka mál.

21. grein Vanhæfi.

21.1 Dómari, þar á meðal meðdómari, er vanhæfur til að fara með mál ef:

a. hann er aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila.

b. hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila leiðbeiningar um það, umfram skyldu sem dómarar hafa.

c. hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið.

d. hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.

e. hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda með þeim hætti er segir í d-lið.

f. hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í d-lið.

g. fyrir eru hendi önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, m.a. ef dómari eða náinn skyldmenni eru félagsbundin aðila máls.

21.2   Verði allir dómarar dómstóls vanhæfir til setu í dómsmáli skal framkvæmdastjórn ÍSÍ skipa á stjórnarfundi, dómara, sem uppfyllir hæfisskilyrði til að fara með málið. Sé um fjölskipaðan dóm að ræða skal sá sem skipaður er af framkvæmdastjórn velja aðra dómara.

22. grein Almenn hæfisskilyrði.

22.1   Kjörnir dómarar dómstóla ÍSÍ skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

a. að vera svo á sig komnir andlega og líkamlega að þeir geti gegnt embættinu,

b. að hafa lokið embættisprófi í lögum.

c. að hafa náð 25 ára aldri.

22.2   Meðdómarar sem taka sæti í dómstól ÍSÍ skulu hafa almenna þekkingu á íþróttalögum og málefnum íþróttahreyfingarinnar, eða aðra þá sérþekkingu sem nauðsynleg telst í viðkomandi máli.

4.2 Dómstóll ÍSÍ.

23. grein Skipan dómsins.

23.1   Dómarar dómstóls ÍSÍ skulu vera sex.

23.2   Á reglulegu íþróttaþingi, skulu kosnir sex dómarar til setu í dómnum til næsta reglulega þings.

23.3   Á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing skulu dómarar koma saman og kjósa dómsformann. Náist ekki niðurstaða með kosningu hver skuli kosinn formaður dómsins skal varpað hlutkesti milli þeirra sem flest atkvæði fá í kosningu. Þá skal kosinn fyrsti og annar varaformaður dómsins með sama hætti.

23.4   Dómurinn skal hafa starfsaðstöðu á skrifstofu ÍSÍ. Allar kærur skulu berast á skrifstofu dómsins.  Formaður ákveður hver af hinum reglulegu dómurum fer með það mál sem er til meðferðar.  Mál skal rekið þar sem hagkvæmast er fyrir aðila hverju sinni.

23.5  Einn dómari skal fara með hvert mál.
 
23.6   Í málum sem varða meint brot á 44. gr. laga ÍSÍ og þegar fram koma varnir af hálfu kærða ber dómara að kalla til tvo meðdómara í dóminn og skal a.m.k. annar þeirra hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði eða öðrum lífvísindum.  Nú telur dómari þörf á meðdómurum , þrátt fyrir að varnir hafi ekki komið fram,  og er honum þá einnig heimilt, í samráði við formann dómsins, að kalla til tvo meðdómara. Meðdómarar þurfa ekki að vera löglærðir.

24. grein Kærufrestur.

24.1  Kærufrestur til dómstóls ÍSÍ er ein vika frá því að atvik það, sem kært er bar við eða ástandi lauk ef um ástandsbrot er að ræða séu ekki skemmri frestir ákveðnir í lögum viðkomandi sérsambands. Í málum er varða brot á 44. grein laga ÍSÍ skal kærufrestur þó vera fjórar vikur frá því að öll gögn málsins berast Lyfjaráði ÍSÍ.

24.2   Dómstóll ÍSÍ getur veitt leyfi til að mál sé höfðað eftir að kærufrestur er liðinn ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

24.3   Sé máli vísað frá dómi hefur kærandi þriggja daga frest til að skjóta málinu aftur fyrir dómstólinn. Frestur skal byrja að líða þegar frávísun berst kæranda og almennir frídagar skulu ekki telja með.

25. grein Meðalganga og upplýsingagjöf.

25.1   Telji aðili að mál varði mikilsverða hagsmuni hans, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til dómsins að hann verði aðili málsins. Krafa þessi þarf að koma fram svo fljótt sem verða má og eigi síðar en við aðalflutning málsins.

26. grein Form og efni kæru.

26.1   Kæra skal vera skrifleg. Dómstóll ÍSÍ skal láta útbúa sérstakt eyðublað sem nota má sem kæru.  Eyðublað þetta skal liggja frammi á skrifstofu ÍSÍ.

26.2   Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í kæru:

a. Nafn, kennitala og heimilisfang kæranda,

b. Nafn kærða, kennitala og heimilisfang.

c. Nafn fyrirsvarsmanns kæranda, heimilisfang hans, símanúmer, númer myndsendis og netfang.

d. Greinargóð lýsing á því hvaða kröfur eru gerðar í málinu.

e. Lýsing helstu málavaxta.

f. Tilvísun til þeirra lagareglna sem við eiga.

g. Lýsing á helstu röksemdum aðila málsins.

h. Lýsing á þeim gögnum sem kærandi byggir mál sitt á, ásamt ljósriti af þeim gögnum.

i. Upptalning á þeim vitnum sem kærandi mun kalla til skýrslutöku.

26.3   Kæra, ásamt fylgigögnum, skal send dóminum í tveimur eintökum.

 27. grein Málsmeðferð.

27.1   Mál telst höfðað með því að kæra berst á skrifstofu ÍSÍ. Kærandi á rétt á því að fá kvittun fyrir móttöku kærunnar.

27.2   Formaður dómsins skal svo fljótt sem hægt

er taka afstöðu til þess hvort einhverjir formgallar samkvæmt 26.gr. geri að verkum að málið sé ekki tækt til meðferðar . Séu slíkir gallar á málinu skal dómsformaður vísa málinu frá dómi með úrskurði.

27.3   Telji dómsformaður að málið sé réttilega höfðað skal hann innan tveggja virkra daga ákveða hvaða dómari skuli fara með málið.

27.4   Sé dómsformaður forfallaður skulu varaformenn annast þau verkefni sem til falla í þeirri röð sem þeir eru kosnir.

27.5   Dómari sem fær mál til meðferðar skal án tafar senda kærða (varnaraðila) áskorun um að halda uppi vörnum í málinu ásamt afriti af kærunni. Áskorunina skal senda með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Almennt skal frestur til að skila greinargerð ekki vera lengri en ein vika. Greinargerð varnaraðila skal uppfylla þau skilyrði er koma fram í 26. grein, eftir því sem við getur átt.

27.6 Hver aðili skal hafa rétt á túlki við skýrslugjöf  ef dómstóllinn telur þörf á því. Dómstóllinn metur hverju sinni á hvorn aðila kostnaður af slíkri þjónustu fellur.

27.7   Dómari getur óskað eftir skriflegum athugasemdum frá sérsambandi eða öðrum þeim sem málið varðar.

27.8   Þegar dómari hefur móttekið greinargerð varnaraðila, skal hann boða til þinghalds, þingfesta málið og ákveða framhald þess, þ.m.t. hvort málið skal flutt munnlega eða skriflega. Ef mál er ekki munnlega flutt skal aðilum gefinn stuttur frestur til að skila skriflegum athugasemdum.  Dómari getur ákveðið annan hátt á málsmeðferð eftir þingfestingu.

27.9   Dómur skal kveðinn upp innan viku frá því að málflutningi lauk.

27.10 Birta skal aðilum dóm eða úrskurð á ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt, ef þeir eru ekki viðstaddir dómsuppsögn og skal þá jafnframt greint frá heimild aðila til áfrýjunar, áfrýjunarfresti og hvert áfrýja megi.

27.11 Tilkynna skal alla dóma um óhlutgengi félagi hins dómfellda og viðkomandi sérsambandi, ef um einstakling er að ræða, en hlutaðeigandi samtökum íþróttahreyfingarinnar, ef dómþoli er félag.

28. grein Flýtimeðferð máls.

28.1   Telji formaður dómsins augljóst við skoðun á kæru sem honum berst, að brotið hafi verið gegn lögum og reglum íþróttahreyfingarinnar, er honum heimilt að beina þeirri kröfu til gagnaðila, að hann upplýsi innan sólarhrings hvort hann hyggst hafa varnir uppi í málinu og hverjar þær varnir séu. Komi í ljós að engar varnir verða hafðar uppi í málinu eða ef framkomnar varnir eru bersýnilega tilgangslausar er honum heimilt með úrskurði að dæma kæranda í hag.

28.2   Heimilt er að skjóta úrskurði samkvæmt gr. 28.1. til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Fer um það skv. 33. gr.

29. grein Tilnefning talsmanns fyrir dómi.

29.1 Hver málsaðili á rétt á málssvara á eigin kostnað við meðferð málsins fyrir dómstólum ÍSÍ.

29.2    Telji dómurinn að hætta sé á að málsstaður annars málsaðila verði fyrir tjóni vegna þess að hann er ekki fær um að koma sínum sjónarmiðum að í málinu, getur formaður dómsins upplýst framkvæmdastjóra ÍSÍ um slíkt. Framkvæmdastjóri ÍSÍ skal þá skipa aðila til að gæta hagsmuna viðkomandi málinu.

30. grein Kæruréttur.

30.1   Rétt til kæru hefur hver sá, einstaklingar, félag og félagasamtök, sem misgert er við og hagsmuni hafa af niðurstöðu máls.

30.2   Sérsambönd, héraðssambönd/íþróttabandalög og félög geta höfðað mál vegna allra atriða er varða viðkomandi sérsamband eða félag.

30.3   Framkvæmdastjórn ÍSÍ, getur höfðað mál vegna allra brota á reglum ÍSÍ.

30.4   Lyfjaráð ÍSÍ getur höfðað mál vegna brota á 44.grein.

4.3 Áfrýjunardómstóll ÍSÍ.

 31. grein Skipan dómsins.

31.1   Í áfrýjunardómstól ÍSÍ skulu eiga sæti sex dómarar kosnir af reglulegu íþróttaþingi.

31.2   Á reglulegu íþróttaþingi, skulu kosnir sex dómarar til setu í dómnum til næsta reglulega þings.

31.3   Forseti dómsins og varaforseti skulu kosnir á fyrsta dómarafundi eftir reglulegt íþróttaþing.  Verði atkvæði jöfn við kosningu, skal varpað hlutkesti milli þeirra sem flest atkvæði fá í kosningu.

32. grein Fjöldi dómara.

32.1   Þrír dómarar skulu dæma hvert mál fyrir dómstólnum. Forseti dómsins skal ákveða hverju sinni hvaða þrír dómarar skuli fara með mál. Forseti, eða varaforseti í forföllum hans, skal úrskurða um hæfi einstakra dómenda.

33. grein Áfrýjun.

33.1   Heimilt er að skjóta til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, dómum og úrskurðum dómstóls ÍSÍ.

33.2   Þar sem sérsamband ákveður að hafa sérstaka dómstóla þá verður málum þeirra ekki skotið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þó er heimilt að áfrýja þeim málum áfrýjunardómstóla sérsambanda sem varða Ólympíusáttmálann eða túlkun á honum.  Áfrýjunardómstóll ÍSÍ ákveður í þessum tilvikum hvort kæruatriði séu þess eðlis að hann eigi um þau að fjalla. Ef áfrýjunardóm-stóllinn hafnar kæruatriðum áfrýjanda er málinu endanlega lokið.

33.3   Frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstólsins skal vera ein vika frá því að aðila máls var fyrst kunnugt um niðurstöðu málsins, en þó eigi síðar en 4 vikum eftir að dómur undirréttar var upp kveðinn.

33.4   Sá sem hyggst áfrýja máli skal senda áfrýjunardómstólnum sérstaka greinargerð þar sem lýst er þeim sjónarmiðum sem áfrýjandi byggir á ásamt gögnum málsins.

33.5   Eftirtaldir aðilar hafa áfrýjunarrétt í málum er varða brot á gr. 44.1. af hálfu íþróttamanns er tilgreindur er í gr. 43.3. a) eða b):

a) hinn ákærði

b) Lyfjaráð ÍSÍ

c) Alþjóða Lyfjaeftirlitsstofnunin World Anti-Doping Agency, WADA

d) viðkomandi alþjóðlegt sérsamband

Ef ákærði var á afrekslista alþjóðlegs sérsambands er brotið var framið hafa eftirtaldir einnig áfrýjunarrétt:

a) annar framkvæmdaraðili lyfjaeftirlits, sem hefði getað farið fram á refsingu yfir ákærða samkvæmt eigin reglum

b) Alþjóða Ólympíunefndin eða eftir atvikum Alþjóða Ólympíunefnd fatlaðra

34. grein Ný gögn og málsmeðferðarreglur.

34.1   Ný gögn skulu ekki lögð fram fyrir áfrýjunardómstól. Vitna og aðilaskýrslur skulu ekki fara fram.

34.2   Dómstólnum er heimilt að víkja frá ákvæði 1.mgr. þegar sérstaklega stendur á.

34.3   Málsmeðferðarreglur kafla 4.2 laganna skulu gilda um áfrýjunardómstól ÍSÍ eftir því sem við á.

4.4 Almenn ákvæði.

 35. grein Tegundir brota.

35.1   Undir dómstóla ÍSÍ heyra öll brot á lögum ÍSÍ, sérsambanda,

héraðssambanda/íþróttabandalaga og félaga samkvæmt þeim lögum og reglum er um það gilda sbr. þó 2. ml. 1. mgr. 20. gr. og auk þess:

1. Brot gegn móta- og leikreglum.

a) Að láta skrá íþróttamann til keppni gegn vilja hans eða að honum forspurðum.

b) Að koma ekki til leiks án löglegra forfalla, ef hlutaðeigandi íþróttamaður hefur látið skrá sig til keppni.

c) Að blekkja eða reyna að blekkja starfsmann í leik eða óhlýðnast fyrirmælum sem hann gefur stöð sinni samkvæmt.

d) Að koma ósæmilega fram við eða ögra starfsmanni meðan á móti eða sýningu stendur eða síðar sakir atvika, sem þar gerðust.

e) Að taka þátt í keppni eða sýningu með eða undir forsjá aðila, félags eða einstaklings, sem úrskurðaður hefur verið óhlutgengur, enda hafi óhlutgengisúrskurðurinn verið birtur samkvæmt grein 27.10.

2. Brot gegn íþróttasamtökum.

a) Að bera yfirvöld, einstaklinga eða félög innan íþróttahreyfingarinnar röngum sökum eða kæra þau að ástæðulausu.

b) Að blekkja eða reyna að blekkja yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar með röngum skýrslum, eða villandi upplýsingum.

c) Að koma ósæmilega fram við, ögra eða hafa í hótunum við yfirvald innan íþróttahreyfingarinnar vegna atvika sem standa í sambandi við trúnaðarstörf yfirvaldsins fyrir íþróttahreyfinguna.

3. Brot gegn áhugamannareglum ÍSÍ eða sérsambanda þess.

4. Brot út á við, sem valda íþróttahreyfingunni álitshnekki.

a) Að koma svo fram, að íþróttunum sé álitshnekkir að.

b) Brot gegn hegningarlögunum, sem hafa í för með sér sviptingu borgaralegra réttinda.

5. Brot gegn reglum ÍSÍ um keppnisferðir.

36. grein Dómsniðurstöður.

36.1   Dómstólar ÍSÍ geta í dómsorði auk efnisniðurstöðu m.a. kveðið á um eftirfarandi réttindi og skyldur til aðila málsins:

a) Dæmt mót ógild og eftir atvikum dæmt að mót skuli endurtekið.

b) Dæmt leiki ógilda, látið endurtaka þá eða dæmt um úrslit þeirra.

c) Ákvarðað dagsektir gagnvart aðildarfélögum og sérsamböndum en ekki einstaklingum.  Dagsektir renni til ÍSÍ.

d) Ákveðið sektir á félög og sérsambönd.

e) Málskostnað, ef málsgrundvöllur telst vera tilefnislaus.

36.2 Þær refsingar sem dómstólar ÍSÍ geta beitt eru:

a) Áminning.

b) Vítur.

c) Óhlutgengi

                 i. útilokun frá þátttöku í æfingum, keppnum og sýningum innan

                 íþróttahreyfingarinnar, tímabundið eða ævilangt

                 ii.svipting réttar til að gegna trúnaðarstörfum innan

íþróttahreyfingarinnar (hefur ekki í för með sér missi almennra félagsréttinda eða keppnisréttar) tímabundið eða ævilangt.

d) Aðrar refsingar er lög eða reglur sérsambanda, héraðssambanda/-íþróttabandalaga og félaga tiltaka.

36.3  Ef verulegar líkur eru til að ætla að íþróttamaður verði úrskurðaður óhlutgengur skv. grein 36.2. c) og brýna nauðsyn ber til, er dómstól ÍSÍ heimilt að úrskurða um bráðabirgðabann við þátttöku hans í æfingum, keppnum og sýningum á vegum sambandsaðila ÍSÍ eða félaga eða deilda innan þeirra og við því að hann gegni trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, enda hafi komið fram rökstudd krafa um það frá aðila sem kærurétt hefur skv. 30. gr. Meðferð slíkra mála skal vera skv. 28. gr. Bráðabirgðabannið tekur gildi frá þeim tíma sem íþróttamanninum er tilkynnt um það. Hafi ekki verið ákært og dæmt í málinu þegar fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma, skal dómstóll ÍSÍ taka ákvörðun um hvort bráðabirgðabannið verður framlengt eða fellt úr gildi. Heildar­lengd bráðabirgða­banns má þó aldrei verða meiri en lengd þess refsitíma sem ætla má að lokadómur í hverju máli kveði á um. Útgáfa, framlenging eða niðurfelling bráðabirgðabanns skal tilkynnt skriflega íþróttamanninum, félagi hans og sérsambandi því er hann heyrir undir, með sannanlegum hætti.  Hafi íþróttamaður verið úrskurðaður í bráðabirgðabann áður en hann er dæmdur til refsingar skv. gr. 36.2.c skal lengd þess koma til frádráttar þeim refsitíma sem lokadómur í málinu kveður á um.

37. grein Þingbækur/Dómabækur.

37.1   Við dómstóla ÍSÍ skulu vera haldnar sérstakar þingbækur. Við fyrirtöku máls skal rita skýrslu í þingbók um það sem fram fer, hvaða gögn eru lögð fram, hverjir mæta í máli og hvað er afráðið um rekstur máls. Í þingbók skal jafnframt færa þær ákvarðanir sem teknar eru í málinu.

Efni þingbókar skal að jafnaði ekki birt almenningi.

37.2   Við dómstóla ÍSÍ skal haldin sérstök dómabók sem hefur að geyma uppkveðna dóma og úrskurði. Dómabók skal vera aðgengileg.

38. grein ÍSÍ sérsamband.

38.1   Framkvæmdastjórn ÍSÍ í þeim greinum, sem ÍSÍ er sérsamband fyrir, og stjórnir sérsambanda, í sínum greinum, geta kveðið upp óhlutgengisúrskurði yfir íþróttamönnum, sem brotlegir eru, en skylt er að skjóta slíkum úrskurðum til Dómstóls ÍSÍ sem ber þegar að taka slík mál fyrir.

39. grein Niðurfelling refsingar.

39.1   Íþróttaþingi er heimilt með minnst 2/3 greiddra atkvæða að fella niður refsingu eða veita dæmdum aðila full réttindi að nýju innan íþróttasamtakanna.