Beint á efnisyfirlit síðunnar

Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Þátttaka íslenskra grunnskólanemenda hefur verið mjög góð og almenn í gegnum árin og má geta þess að um 40 grunnskólar tóku þátt í hlaupinu í fyrra og hlupu um 10.000 nemendur rúmlega 40.000 kílómetra. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er Íþróttakennarafélag Íslands.

Í ár er hlaupið styrkt af verkefninu European Week of Sport og af því tilefni verður bryddað upp á þeirri nýjung að draga út þrjá þátttökuskóla sem ljúka hlaupinu fyrir 30. september og skila inn skilagrein til ÍSÍ. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 30. september geta eftir sem áður skilað inn skilagrein og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2015.

Þess er vænst að forráðamenn skóla leggi okkur lið með skipulagningu og jákvæðri kynningu á hlaupinu, í samráði við kennara og annað starfsfólk skólans og hvetji nemendur til þátttöku. Íþróttakennarafélag Íslands hefur verið samstarfsaðili frá upphafi og á því hefur ekki orðið breyting. 

Allar frekari upplýsingar um Norræna skólahlaupið 2015 er að fá hjá Þróunar- og fræðslusviði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

 

Norræna skólahlaupið 2015 markmið

Norræna skólahlaupið 2015 skilagrein

    Á döfinni

    11.02.2017 - 18.02.2017

    EYOWF 2017

    Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOWF)...
    23