Beint á efnisyfirlit síðunnar

VINÁTTA – VIRÐING – AÐ GERA SITT BESTA


Á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega Ólympíudaginn þann 23. júní út um allan heim. Þessi viðburður er haldinn í tilefni af því að 23. júní árið 1894 var Alþjóða Ólympíunefndin stofnuð. Alþjóðlegi Ólympíudagurinn er orðinn einn af lykilviðburðum Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC). Heildarfjöldi þátttakenda hefur verið um fjórar milljónir og hafa um 150 þjóðir tekið þátt.

Hér á landi hefur þessi dagur verið haldinn hátíðlegur undanfarin ár. Á Ólympíudaginn eru íþróttafélög, frístundaheimili, skólar, leikskólar og sumarnámskeið hvött til þess að bjóða upp á Ólympíuþema. Ólympíudagurinn er tækifæri til þess að skora á unga sem aldna til þess að hreyfa sig, læra um hin góðu áhrif sem líkamleg hreyfing hefur í för með sér og skemmta sér. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og að gera ávallt sitt besta.

Ólympíudagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþemu í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Þess vegna er kjörið að bjóða upp á ýmiss konar íþróttir og þrautir, en ekki einungis íþróttir sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Það er gaman fyrir unga fólkið að fá að prufa hinar ýmsu greinar og þrautir og jafnvel að búa til sínar eigin.

ÍSÍ skipuleggur Ólympíudaginn í samstarfi við Ólympíufjölskylduna og íþróttahreyfinguna. ÍSÍ hvetur sérsambönd, íþrótthéruð, íþróttafélög, frístundaheimili, skóla, leikskóla og sumarnámskeið til þess að vera með. Hugmyndin er til dæmis sú að íþróttafélög geti nýtt daginn til þess að kynna sínar íþróttagreinar eða íþróttafélagið í bland við smá fræðslu um Ólympíuhreyfinguna. Þetta er einnig tilvalið til þess að nýta á sumarnámskeiðum félaganna. Hægt er að velja sér fyrirkomulag sem hentar, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Æskilegt er að halda upp á Ólympíudaginn í kringum 23.júní, en það er valfrjálst. Það má halda Ólympíudag hvenær sem er yfir árið.

Framkvæmd og tilhögun Ólympíudagsins fer algjörlega eftir hverju sérsambandi, íþróttahéraði, íþróttafélagi, frístundaheimili, skóla, leikskóla og sumarnámskeiði fyrir sig, en mótaðar hafa verið ákveðnar hugmyndir um hvað hægt er að gera. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna hér á heimasíðu ÍSÍ.                 


    Á döfinni

    17