Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÞJÁLFARMENNTUN.jpg (36728 bytes)

Þjálfaramenntun ÍSÍ er áfangaskipt fræðslukerfi í fimm þrepum þar sem skilgreindar eru kröfur um menntun fyrir ákveðna markhópa. Þetta kerfi er samræmt fyrir allar íþróttagreinar.

Menntun á fyrstu þremur þrepunum er innan íþróttahreyfingarinnar. Þjálfarastig 4 og 5 verða væntanlega kennd innan háskólanna sem sjálfstætt framhald af námi þriggja fyrstu stiganna. ÍSÍ sér um almenna hluta fyrstu þriggja stiganna og heldur utan um þá kennslu, sem öll er í fjarnámi. Sérsambönd ÍSÍ sjá svo um sérgreinaþátt þeirra stiga eins reglulega og þeim er unnt.

ÍSÍ býður upp á almenna hlutann á fyrstu tveimur stigunum þrisvar á ári, sumar-, haust- og vor. Framboð náms á 3. stigi fer svo eftir eftirspurn hverju sinni sem m.a. ræðst af því hversu vel sérsamböndunum tekst að keyra sín námskeið. Menntun á hverju stigi fyrir sig er ekki lokið fyrr en þjálfari hefur lokið bæði almenna hlutanum hjá ÍSÍ og sérgreina hlutanum hjá viðkomandi sérsambandi. Þátttakendur á námskeiðum í almenna hlutanum koma úr ólíkum íþróttagreinum og allsstaðar að af landinu. Þjálfaramenntun ÍSÍ gefur réttindi til íþróttaþjálfunar og fá allir nemendur sem ljúka námi á 1. stigi þjálfaraskírteini með staðfestingu á náminu og einkunn. Auk náms á stigunum þurfa þjálfarar að hafa gilt skyndihjálparnámskeið og ákveðna þjálfunarreynslu til að geta haldið áfram námi. Einnig eru aldurstakmörk inn á námskeiðin sem er 16 ár inn á 1. stig, 18 ár á 2. stig og 20 ár á 3. stig.

Stefnuyfirlýsingu um þjálfaramenntun má nálgast hér.

 

Þjálfari 1 - átta vikna námskeið í fjarnámi

Inntökuskilyrði: Lágmarksaldur 16 ár. Grunnskólapróf

Kostnaður: 25.000 kr. (Fyrirmyndarfélög og deildir fá 20% afslátt fyrir sína þjálfara)

Skilgreining:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu. Þjálfarinn á að kunna helstu grunnatriði í tækni, leikfræði og reglum í séríþróttagrein.

 

Þjálfari 2 - fimm vikna námskeið í fjarnámi

Inntökuskilyrði: Lágmarksaldur 18 ár, hafa lokið fyrsta þjálfarastigi og sex mánaða starfsreynsla frá því að þjálfarastigi 1 var lokið. Að auki þarf viðkomandi að hafa gilt skyndihjálparnámskeið.

Kostnaður: 22.000 kr. (Fyrirmyndarfélög og deildir fá 23% afslátt fyrir sína þjálfara)

Skilgreining:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta þjálfað unglinga og fullorðna sem hafa árangur í keppni að markmiði. Til þess þarf hann að hafa haldgóða þekkingu á starfsemi líkamans og skipulagi þjálfunar til lengri og skemmri tíma. Hann þarf að hafa undirstöðuþekkingu á hreyfingarfræði og kunna grunnatriði í næringarfræði og sálfræði íþrótta.

Þjálfarinn þarf að hafa fengið þjálfun í að tjá sig og koma fram fyrir framan hóp af fólki.

Þjálfarinn þarf að hafa góða þekkingu á tækni, leikfræði og reglum í séríþróttagrein. Auk þess þarf hann að kunna skil á helstu þjálfunaraðferðum viðkomandi greinar.

 

Þjálfari 3 - fimm vikur í fjarnámi

Inntökuskilyrði: Lágmarksaldur 20 ár. Þarf að hafa lokið öðru þjálfarastigi. Eins árs starfsreynsla frá því að þjálfarastigi tvö var lokið

Skilgreining:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta tekið að sér að skipuleggja og útfæra þjálfun hjá félagi eða deild. Hann á að geta tekið að sér þjálfun yngri landsliða og kennt á námskeiðum hjá sérsamböndum og ÍSÍ.

Frekari upplýsingar um hvert þjálfarastig má finna hér til hliðar á síðunni.

Bækling um þjálfaramenntun má nálgast hér.

    Á döfinni

    17