Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

ÍSÍ úthlutar styrkjum til afreksstarfs á afmælisári

06.01.2012Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, miðvikudaginn 4. janúar 2012,  tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fyrir árið 2012.  Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals rúmlega 83 milljónum króna en úthlutað er rúmlega  67 m.kr. úr Afrekssjóði ÍSÍ og 10 m.kr. úr Sjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. 

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir vegna 45 einstaklinga og vegna 26 verkefna.  39 einstaklingar hljóta styrk að þessu sinni og 26 verkefni.  Líkt og á síðasta ári er aðeins einn íþróttamaður á A-styrk, Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari.  Breytingar eru á listum þeirra sem hljóta A, B og C styrki sjóðsins, en þeim fjölgar er hljóta þessa styrki sjóðsins.  Alls eru 21 íþróttamenn á þeim styrkjum.  1 á A-styrk, 13 á B-styrk og 7 á C-styrk.

Styrktarsjóður ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna mun í ár leggja áherslu á fræðslu fyrir þá íþróttamenn sem eru á styrk hjá sjóðnum.  Markmið sjóðsins er að skapa styrkþegum umgjörð og aðgang að sérfræðingum í fagteymi ÍSÍ.

Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni rúmlega 80 milljónir króna, sem er hærra en styrkupphæðir undanfarinna ára er enn langt í land að styrkir ÍSÍ standi undir afreksstarfi sérsambandanna.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2012 er 34,7 m.kr.  Árið 2006 var styrkurinn 30 m.kr. og hafði sú upphæð verið óbreytt árin þar á undan.  Flestir kostnaðarliðir sambandsaðila sem styrktir eru með fjármagni úr sjóðnum er erlendur kostnaður.  Verðgildi þess styrks hefur rýrnað mjög ef borin eru saman framlög síðustu ára.  Þannig var framlag ríkisins árið 2006 í erlendum upphæðum um 480 þús. bandaríkjadalir eða tæplega 400 þús. evrur.  2011 var framlag ríkisins kr. 24,7 m.kr. og nam sú upphæð rúmlega 211 þús. bandaríkjadölum eða tæplega 157 þús. evrum.  Ef framlagið til sjóðsins er borið saman við þróun vísitalna og gengis er ljóst að um verulega rýrnun á virði framlaga til sjóðsins er að ræða.  Þess ber þó að geta að fyrir árið 2012 var framlag ríkisins til sjóðsins hækkað um 10 m.kr. frá árinu 2011.

Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings.

Íslenskt afreksíþróttafólk eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni.  Þegar vel gengur styðja Íslendingar vel við sína fremstu íþróttamenn en þegar á móti blæs er stutt í gagnrýnisraddir.  Úthlutun Afrekssjóðs fyrir árið 2011 tekur mið af því að um er að ræða árið fyrir Sumarólympíuleikar.  Sjóðurinn hefur fulla trú á að styrkþegar geti unnið sér inn þátttökurétt á leikunum og þannig skipa sér í röð meðal þeirra bestu í heimi í sinni íþróttagrein.
Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu.

Hér má finna samantekt yfir úthlutun dagsins og samantekt á styrkjum.

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Örn Andrésson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og starfsmaður Afrekssjóðs ÍSÍ kynntu úthlutun.