Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Tímamót

05.12.2013

Eins og flestir vita þá tók ég, við andlát Ólafs Rafnssonar nú í sumar, við keflinu sem forseti ÍSÍ.  Var það í samræmi við lög ÍSÍ og stöðu mína sem varaforseti samtakanna. Það var augljóslega ekki eitthvað sem ég hafði gert ráð fyrir.  Það er öllum ljóst sem til þekkja að forsetaembættinu fylgja miklar skyldur og mikil vinna sem þarf að ætla sér tíma í.  Ég hef síðustu mánuði  tekist á við þessar breyttu aðstæður og með liðsinni góðra félaga minna í framkvæmdastjórn og frábærra starfsmanna ÍSÍ hefur allt gengið að vonum.  Ég hef mikla reynslu af starfi innan íþróttahreyfingarinnar sem ég hef komið að með ýmsum hætti í mörg ár og þar af síðustu sjö ár sem varaforseti ÍSÍ. Sú reynsla sem ég hef nú þegar haft af starfi sem forseti hefur verið mjög áhugaverð og gefandi og hlakka ég til þess að takast áfram á við það verkefni. Ég mun að sjálfsögðu leggja mig fram um að sinna skyldum mínum í þessu starfi svo sómi sé að meðan mér er treyst til þess af hreyfingunni.
Fyrir mér sjálfum er þessi staða samt mjög óraunveruleg. Fráfall Ólafs var okkur öllum reiðarslag og í raun fjarstæðukennd og óraunveruleg staðreynd.  Ég sakna vinar í stað og hef ekki enn sætt mig við að forlögin hafi gripið inn í með þessum hætti.

Þróttmikið íþróttastarf
Hvað sem því líður þá er áfram verk að vinna. Horfa þarf fram á veginn og huga að því sem gera þarf til að tryggja framgang íþróttanna og alls þess þróttmikla íþróttastarfs sem stundað er um allt land og í keppnum á alþjóðavettvangi.  Við vitum öll hversu þýðingarmikið barna– og unglingastarfið er, bæði sem uppbyggingarstarf og forvarnarstarf. Við vitum líka að afreksstarfið er mikilvægt til að skapa fyrirmyndir fyrir ungu kynslóðina og ekki síður til að vekja upp  þjóðarstoltið og samkenndina sem við finnum svo mjög fyrir þegar okkar fólki gengur vel í keppnum á alþjóðavettvangi. Við þekkjum dæmin um strákana okkar og stelpurnar okkar bæði í knattspyrnu og handknattleik á síðustu misserum þegar þjóðin hefur sameinast á bak við liðin okkar. Þar var árangurinn alveg ótrúlegur, jafnvel þó við miðum ekki við hina frægu höfðatölu.
Við höfum í gegnum tíðina átt frábæra keppendur í einstaklingsgreinum sem þjóðin hefur með sama hætti staðið sameinuð að baki. Á þessu ári hefur Aníta Hinriksdóttir blásið upp þjóðarstoltið.  Heimsmeistaratitill Anítu og útnefning hennar sem efnilegasta frjálsíþróttakona Evrópu á þessu ári lætur ekkert íslenskt hjarta ósnortið.  Við finnum fyrir miklu stolti yfir velgengni hennar og annars afreksfólks okkar og götur tæmast þegar boðið er upp á beinar lýsingar frá íþróttaleikum okkar fólks.

Uppskera erfiðis
Árangur verður hins vegar ekki til úr engu.  Að baki liggur mikið starf sem að stórum hluta er unnið í sjálfboðaliðsvinnu þúsunda karla og kvenna um allt land í íþróttafélögum, sérsamböndum,íþróttabandalögum og héraðssamböndum.  Grasrótarstarfið miðar allt að því að skapa börnum og unglingum skilyrði til að finna hvar hæfileikar þeirra liggja og láta þá þroskast og dafna eins og efni standa til.  Ekki eingöngu til að búa til afreksfólk heldur miklu fremur til að skapa gleði, ánægju og vellíðan.  Stunda leik sem er hvort tveggja í senn gleðigjafi og heilsubót.  Verkefni okkar er að tryggja að allir hafi aðgengi að slíku starfi og að vinna gegn því brottfalli sem gjarnan verður þegar börnin verða unglingar. Við viljum tryggja að þeim sem ekki velja leið keppnis- og afreksíþrótta bjóðist valkostir sem gera þeim kleift að halda áfram að stunda íþróttir sér til gleði og heilsuræktar.
Af þeim tugþúsundum ungmenna sem stunda íþróttir á Íslandi á ári hverju eru fjölmargir einstaklingar sem hafa hæfileika vel umfram meðallag og sumir langt umfram það. Við þurfum líka að tryggja því unga fólki aðstæður til að þroska hæfileika sína og til að ná þeim árangri sem þau hafa burði til. Þetta eru einstaklingarnir sem geta orðið sameiningartáknin fyrir þjóðina sem í öllu  sínu veraldarbasli stendur sameinuð sem klettur að baki þeim þegar þeir koma fram í okkar nafni. 

Staða afreksfólks
Afreksfólki okkar verðum við að tryggja viðunandi starfsumhverfi og þá ekki eingöngu til að stunda íþrótt sína, heldur einnig til að búa sér eðlilegt líf og undirbúa framtíðina eftir íþróttir, t.d. með námi og uppbyggingu lýðréttinda. Þessar aðstæður eru taldar sjálfsagðar fyrir afreksfólk t.d. á hinum Norðurlöndunum. Það er óásættanlegt að afreksíþróttafólk standi í þeim sporum þegar íþróttaferlinum lýkur að vera 10 – 20 árum á eftir jafnöldrum sínum í uppbyggingu á framtíðarlífsskilyrðum sínum. Því má segja að það geti verið ábyrgðarhlutur að hvetja ungt fólk til þátttöku í afreksíþróttum eins og aðstæður margra þeirra sem þá braut feta eru eftir að keppnisferli lýkur.

Horft til framtíðar
Á undanförnum árum hefur gríðarlega mikið áunnist í starfi íþróttahreyfingarinnar.  Aðstæður til íþróttaiðkunar hafa tekið stökkbreytingum.  Knatthús og íþróttahallir hafa risið víða um land og önnur aðstaða einnig stórbatnað.  Þessi uppbygging er að skila sér í mikilli fjölgun iðkenda og stórbættum árangri afreksmanna.  Þessi þróun er mjög gleðileg og þeir sem staðið hafa að þessari uppbyggingu eiga miklar þakkir skildar.  Ég tel einnig að þessi þróun staðfesti skilning manna á mikilvægi íþrótta fyrir samfélagið.  Við erum því svo sannarlega á réttri braut.
Verkefni nánustu framtíðar eru að tryggja að framlag íþróttahreyfingarinnar til barna- og unglingastarfs verði metið að verðleikum og að fjármögnun þess verði tryggð svo unnt sé að verða við þeim miklu kröfum sem nú til dags eru gerðar til þeirrar starfsemi.
Sama má segja um afreksstarfið. Við verðum að hlúa að því eins og gert er í nágrannalöndum okkar. Ég held að nær  allir Íslendingar vilji njóta ávaxta afreksstarfsins en því fylgir ábyrgð eins og endranær – við verðum að tryggja að það umhverfi sem afreksfólki er búið sé viðunandi því við viljum ekki að þeir sem feta þessa braut þurfi að lifa eins og beiningarfólk, jafnvel utan við það samfélagslega öryggisnet sem við teljum öll sjálfsagt.
Þær aðstæður sem þjóðin hefur búið við síðustu ár í skugga hrunsins hafa eðlilega haft áhrif á íþróttastarfsemina í landinu eins og allt annað. Niðurskurður á styrkjum til viðbótar við stóraukinn kostnað íþróttahreyfingarinnar, sérstaklega í alþjóðasamskiptum og -keppnum, hafa sett mark sitt á starf síðustu ára. Við hrunið dró einnig gríðarlega úr stuðningi  atvinnulífsins við alla íþróttastarfsemi.
Nú bindum við vonir við að  þróunin snúist til betri vegar.  Stjórnvöld sýna nú mikinn skilning á aðstæðum íþróttahreyfingarinnar og ef fram fer sem horfir munu fjárframlög aukast verulega á næsta ári.  Framkvæmdastjórn ÍSÍ telur mjög mikilvægt að freista þess að ná langtímasamningi um stuðning ríkisins við íþróttahreyfinguna þannig að með stigvaxandi framlögum á næstu árum náum við fram þeim markmiðum sem ég hef hér gert að umtalsefni.
Við megum hins vegar aldrei gera minni kröfur til okkar sjálfra en við gerum til annarra og  þurfum því að líta í eigin barm.  Íþróttahreyfingin verður að skoða sín innri mál og skipulag til að tryggja að fyllstu hagkvæmni sé gætt í öllu okkar starfi.  Við verðum að skipuleggja okkar starfsemi þannig að hver króna nýtist sem best allt frá yfirstjórn og niður í grasrót. Það verkefni er og verður viðvarandi. 
Ég hlakka til að eiga áframhaldandi samstarf við alla innan hreyfingarinnar við að styrkja og efla íþróttastarfið í landinu.

Lárus L. Blöndal
forseti ÍSÍ