Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Fundur væntanlegra þátttakenda á Ólympíuleikum í Ríó

03.05.2016

Íþróttamenn, þjálfarar og annað aðstoðarfólk sem kemur til greina vegna þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar hittist á dögunum í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Nú þegar um 100 dagar eru þangað til leikarnir í Ríó verða settir er að ýmsu að huga og þessa dagana er verið að ganga frá skráningu á öllum þeim sem koma til greina sem keppendur eða þátttakendur í öðrum hlutverkum.

Meðal þess sem farið var yfir með væntanlegum þátttakendum voru ýmsar gagnlegar upplýsingar um keppnis- og æfingasvæði og aðbúnað hópsins í þorpinu. Sagt var frá fagteymisþjónustu sem keppendum stendur til boða meðan á leikunum stendur. Tækifærið var nýtt til að kynna reglur sem um leikana gilda, auk þess sem íþróttafólkið fór í myndatöku og fatnaðarmátun.

Eins og staðan er í dag hafa þrír keppendur tryggt sér þátttökurétt í sundi, tveir í frjálsum íþróttum og einn í fimleikum. Enn á eftir að úthluta sætum í nokkrum íþróttagreinum og lágmarkatímabili er ekki lokið í öðrum svo vonandi á eftir að bætast í hópinn á komandi vikum.