Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

ÍSÍ skipar vinnuhóp og leitar til alþjóðlegra fagmanna vegna afreksmála

21.09.2016

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur skipað þriggja manna vinnuhóp til að gera tillögur til framkvæmdastjórnar ÍSÍ um breytingar á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ í kjölfar undirritunar samnings um stóraukin fjárframlög ríkisvaldsins til sjóðsins. Vinnuhópurinn skal gera tillögur um breytingar á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ með það fyrir augum að hámarka nýtingu þess fjármagns til eflingar afreksstarfs og árangurs þess í framtíðinni. Stefnt er að því að vinnuhópurinn skili áfangaskýrslu til Formannafundar ÍSÍ 11. nóvember n.k. og endanlegum tillögum sínum til framkvæmdastjórnar ÍSÍ fyrir 1. mars n.k.
Vinnuhópinn skipa Stefán Konráðsson formaður Íþróttanefndar ríkisins og fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, dr. Þórdís Lilja Gísladóttir nýdoktor HÍ og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg og Friðrik Einarsson fyrrverandi formaður Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og fyrrverandi formaður Skíðasambands Íslands.

Vinnuhópurinn hefur hist á sínum fyrsta fundi og leggur áherslu á að sækja hugmyndir og þekkingu til þeirra aðila sem hafa getið sér gott orð fyrir fagmennsku í störfum sínum og hafa starfað í alþjóðlegu afreksumhverfi hjá þeim þjóðum sem við berum okkur oft saman við auk erlendra sérfræðinga til ráðgjafar og aðstoðar. Viðhorfshópinn skipa: Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Danmerkur í handknattleik, Vésteinn Hafsteinsson alþjóðlegur frjálsíþróttaþjálfari, Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik, Guðmundur Þ. Harðarson fyrrverandi sundþjálfari, Elísabet Gunnarsdóttir knattspyrnuþjálfari í Noregi, Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu, Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik, Vala Flosadóttir frjálsíþróttaþjálfari í Svíþjóð, Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari í golfi, Eyleifur Jóhannesson sundþjálfari í Danmörku, Kristinn Björnsson skíðaþjálfari í Noregi, Bjarni Friðriksson júdóþjálfari, Hrannar Hólm körfuknattleiksþjálfari, Gunnar Páll Jóakimsson frjálsíþróttaþjálfari og Erlingur Jóhannsson prófessor við Háskóla Íslands. Þá mun teymi sérfræðinga hjá Team Danmark og Olympiatoppen í Noregi verða vinnuhópnum til aðstoðar. Auk þess mun vinnuhópurinn leita til fjölmargra aðila innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, s.s. framkvæmdastjórnar ÍSÍ, fulltrúa sérsambanda ÍSÍ, stjórnar Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ varðandi viðhorf og athugasemdir sem tengjast afreksíþróttastarfi og úthlutunum afreksstyrkja íþróttahreyfingarinnar.

Starfsmaður hópsins er Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.