Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Kynningarfundur Forvarnardagsins 2018

01.10.2018

Í morgun fór fram kynningar- og blaðamannafundur forseta Íslands í tilefni af Forvarnardeginum 2018. Fundurinn fór fram í Réttarholtsskóla og þar tóku til máls forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ölmu D. Möller landlækni. Í ávarpi forseta Íslands ræddi hann meðal annars um það hvernig fíkniefni skerða frelsi þeirra sem ánetjast þeim og hindra margt ungt fólk í að láta drauma sína rætast.  Embætti landlæknis stendur að deginum að þessu sinni en undanfarin ár hafa forseti Íslands, Reykjavíkurborg, ÍSÍ, UMFÍ, Bandalag íslenskra skáta, Félag framhaldsskóla, Rannsóknir og greining og Samband íslenskra sveitarfélaga staðið fyrir þessu átaki með stuðningi einkafyrirtækja.

Forvarnardagurinn sjálfur verður 3. október nk. og þá mun forseti Íslands og fulltrúar samstarfsaðila verkefnisins sækja nokkra skóla heim en að venju munu fjölmargir skólar taka þátt í verkefninu þennan dag. Helstu viðfangsefni verkefnisins þetta árið eru misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og rafrettur.

Forvarnardagurinn var haldinn í fyrsta skipti árið 2006 að frumkvæði forseta Íslands. Dagurinn verður nú haldinn í þrettánda sinn í grunnskólum landsins og í áttunda sinn í framhaldsskólum í ár. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins og er beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í þessu verkefni.

Hér á vefsíðu ÍSÍ má sjá meira um Forvarnardaginn.