Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

96. ársþing UMSK

04.03.2020

96. ársþing Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) var haldið þann 3. mars sl. í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Áður en þingið var sett fóru fram tvær kynningar. Sema Erla Serdar kynnti  Æskulýðsvettvanginn, sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna. Ólafur Rafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands (RSÍ), kynnti rafleiki og starfsemi samtakanna en nokkur íþróttafélög eru farin að bjóða upp á skipulagðar æfingar í rafleikjum í sínu starfi.

Hafsteinn Pálsson, annar varaforseti framkvæmdastjórnar ÍSÍ, sat þingið fyrir hönd ÍSÍ.

Litlar breytingar urðu á stjórn UMSK en Hanna Carla Jóhannsdóttir gaf ekki kost á sér áfram og inn kom Pétur Örn Magnússon. Valdimar Leo Friðriksson situr áfram sem formaður en hann var kosinn til tveggja ára í fyrra. Í aðalstjórn sitja Magnús Gíslason, Guðmundur Sigurbergsson, Lárus B. Lárusson og Halla Garðarsdóttir. Í varastjórn sitja Pétur Örn Magnússon, Þorsteinn Þorbergsson og Geirarður Long.

Á þinginu var Hólmfríði Halldórsdóttur veittur Félagsmálaskjöldurinn. Hólmfríður hefur verið ómetanleg í sjálfboðastarfi hjá Hestamannafélaginu Herði til fjölda ára. Hún er ein aðaldriffjöðurin á bak við stofnun fræðslunefndar fatlaðra hjá félaginu árið 2010 og var formaður nefndarinnar til fjölda ára. Það starf hefur fengið verðskuldaða athygli í gegnum árin og er það fyrst og fremst Fríðu að þakka hvernig til hefur tekist. Þá hefur hún verið geysilega öflug í veitinganefnd félagsins, ásamt því að sjá um rekstur félagsheimilsins Harðarbóls til fjölda ára. Þá hefur hún verið tekið virkan þátt í öðrum nefndum félagsins, svo sem Lífstöltinu sem stóð fyrir æfingum og keppni fyrir hestakonur.

Á myndinni með fréttinni má sjá Hólmfríði og Valdimar Leo.