Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Hannes áfram formaður KKÍ

11.05.2015

Viðburðarríku Körfuknattleiksþingi lauk á laugardag. Þingið hófst á föstudag með nefndarstörfum og lauk með atkvæðagreiðslu. Hannes S. Jónsson var endurkjörinn formaður KKÍ til næstu tveggja ára en hann var sjálfkjörinn. Allir sitjandi stjórnarmenn KKÍ gáfu kost á sér og þar sem engin fleiri framboð komu var sjálfkjörið í stjórnina. Í stjórn sambandsins næsta kjörtímabil sitja:  Bryndís Gunnlaugsdóttir, Einar Karl Birgisson, Eyjólfur Þór Guðlaugsson, Erlingur Hannesson, Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, Guðjón Þorsteinsson, Lárus Blöndal, Páll Kolbeinsson og Rúnar Birgir Gíslason.
Mörg mikilvæg málefni voru rædd á þinginu. Meðal annars var samþykkt ný reglugerð um minnibolta félagana sem og ný reglugerð um Íslandsmót 11 ára eða minnibolta 11 ára. Einnig var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að stækka eigi deildarkeppni meistaraflokka karla. Samkvæmt henni á að bæta við 3. deild karla. Miklar umræður voru um fyrirkomulag fjölda erlendra leikmanna í efstu deildum karla og kvenna og voru nokkrar tillögur þess efnis. Niðurstaða þingsins var að hafa óbreytt fyrirkomulag og verður því 4+1 við lýði næstu tvö keppnistímabilin.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ.