Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Forvarnardagurinn 2017

02.10.2017

Í morgun fór fram kynningar- og blaðamannafundur forseta Íslands í tilefni af Forvarnardeginum 2017, sem haldinn verður nk. miðvikudag 4. október. Blaðamannafundurinn fór fram í Kelduskóla- Vík. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er einn af samstarfsaðilum dagsins.

Á fundinn mættu auk Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar þeirra samtaka og bakhjarla sem að deginum standa, skólastjóri Kelduskóla og nemendur skólans. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ voru viðstödd.

Forseti Íslands hélt stutt erindi um mikilvægi þess að líta á lífið björtum augum og njóta líðandi stundar. Hann lagði áherslu á hversu vel ungt fólk stendur sig í dag, ef miðað er við þann tíma sem hann var ungur sjálfur, en áfengis- og vímuefnaneysla unglinga hefur farið minnkandi með árunum. Hvatti hann einnig nemendur til þess að verja tíma með foreldrum sínum og fjölskyldu og stunda skipulagðar íþróttir eða tómstundir, þar sem rannsóknir hafa sýnt að samvera fjölskyldu og þátttaka í skipulegu frístundastarfi er besta forvörnin.

Dagur borgarstjóri hélt einnig erindi og nefndi það sem dæmi að íslenskir unglingar hafi náð frábærum árangri í baráttunni við áfengi og fíkniefni, því fyrir 20 árum sögðust 42% unglinga í 10. bekk hafa notað áfengi síðustu 30 daga en árið 2016 var sú tala komin í 6%. Hann lagði áherslu á að fagna þeim árangri sem náðst hefur, en vera vakandi fyrir þeim hættum sem ávallt steðja að. 

Forvarnardagurinn var haldinn í fyrsta skipti árið 2006 að frumkvæði forseta Íslands. Dagurinn verður haldinn í tólfta sinn í grunnskólum landsins og í sjöunda sinn í framhaldsskólum nk. miðvikudag Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins og er beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í þessu verkefni.

Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is

Hér á vefsíðu ÍSÍ má sjá meira um Forvarnardaginn.

Fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands má sjá hér.

Myndir frá kynningar- og blaðamannafundinum má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt