Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Verðlaunapeningar á Evrópuleikunum 2019

24.05.2019

Evrópuleikarnir 2019 fara fram í borginni Minsk í Hvíta-Rússlandi þann 21.-30. júní. Leikarnir eru haldnir á vegum Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC). 

Keppt verður í 15 íþróttagreinum og mun Ísland eiga keppendur í badmintoni, júdó, fimleikum, bogfimi og skotíþróttum. Í átta greinum af þeim 15 sem keppt verður í geta keppendur náð lágmörkum á Ólympíuleikana í Tókýó í Japan árið 2020. Evrópuleikarnir eru taldir mikilvægur hluti af undirbúningi íþróttafólks fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Gert er ráð fyrir að um 4000 keppendum frá 50 löndum taki þátt í Evrópuleikunum og að margir hverjir tryggi sig inn á Ólympíuleikana.

Í gær, þegar að mánuður var til leika, voru verðlaunapeningar Evrópuleikanna 2019 kynntir. Kynningarathöfnin fór fram í kastalanum Mir sama dag og kyndilhlaup leikanna náði áfangastað sínum. Kyndilhlaupið, sem kallast „Flame of Peace“ í tengslum við þessa leika, á að vekja athygli á meginmarkmiðum Alþjóðaólympíuhreyfingarinnar sem eru meðal annars að beita íþróttum til að glæða skilning og vináttu á milli fólks og vinna þannig að betri og friðsælli heimi og að vinna að útbreiðslu Ólympíuhugsjónarinnar og beita henni til að skapa velvild á milli þjóða heims. Kyndilhlaupið hófst í Róm þann 4. maí sl. Kyndillinn ferðaðist samtals 7700 km, 450 kyndilberar tóku þátt í hlaupinu og 100 sjálfboðaliðar.

Tákn Evrópuleikanna 2019, hið töfrandi blóm Paparats Kvetka, er mikilvægur hluti af útliti verðlaunapeningsins sem kynntur var í gær, en blómið umlykur merki leikanna í miðjunni. Blómið táknar líka sólina, en þegar að leikarnir fara fram í júní er heitasti tími ársins í Hvíta-Rússlandi og segja Hvítrússar að á þessum tíma sé eins og sólin sé að bráðna á himninum. Tréboxið sem hannað hefur verið utanum verðlaunapeningana er tákn hefðbundinna hvítrússneskra tréverka og náttúru. Verðlaunapeningarnir eru 9.5 cm í þvermál, sem vísar í 9.5 milljóna íbúa Hvíta-Rússlands. Sagt er að blómið Paparats Kvetka láti drauma rætast þegar að það blómstrar og því sé táknrænt að blómið sé á verðlaunapeningnum, því þeir sem hljóta verðlaunapening hafa fengið drauma sína uppfyllta. Um 20 klukkustundir fara í að búa til hvern einasta verðlaunapening. Hver verðlaunapeningur vegur 540 grömm, er 9.5 cm í þvermál og um 1 cm á þykkt. Samtals verða afhendir 1084 verðlaunapeningar, 329 gull- og silfur verðlaunapeningar ásamt 426 bronsverðlaunapeningum. 

Hér má sjá áhugaverðar upplýsingar um Evrópuleikana 2019.

Vefsíðu Evrópuleikanna má sjá hér.

Evrópuleikarnir eru einnig á Facebook

#EuropeanGames
#Minsk2019
#BrightYearBrightYou
#InspiringSportInEurope

 

 

 

Myndir með frétt