Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Íþróttaeldhuginn

08.12.2022

 

Þann 5. desember sl., á Degi sjálfboðaliðans, var lokað fyrir tilnefningar til Íþróttaeldhuga ársins 2022, en hann verður heiðraður samhliða lýsingu á kjöri Íþróttamanns ársins þann 29. desember.  ÍSÍ, í samvinnu við Lottó, standa að þessum nýju verðlaunum til að heiðra sjálfboðaliða innan íþróttahreyfingarinnar og veita störfum þeirra meiri athygli.

Óhætt er að segja að íþróttahreyfingin og almenningur hafi tekið mjög vel í þessi nýju verðlaun. Tilnefningar sem bárust voru 367 talsins og voru 175 einstaklingar tilnefndir úr 24 íþróttagreinum.

Valnefndin, skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðssyni, er tekin til starfa og er óhætt að segja að þeirra bíði ærið en jafnframt spennandi verkefni.