Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Fjármál íþróttahreyfingarinnar

23.11.2012

Ljóst má vera að líklega hafa fjármál íþróttahreyfingarinnar sjaldan brunnið jafn mikið á félögum og aðildarsamböndum innan hreyfingarinnar og nú um stundir.  Hreyfingin hefur verið að sleikja sárin eftir umtalsverðan niðurskurð í kjölfar efnahagshruns fyrir fjórum árum síðan, niðurskurð sem með fyrirliggjandi tekjustofnum er talsvert meiri en hjá öðrum sambærilegum stofnunum sem njóta ríkisframlaga, niðurskurð í hreyfingu sem hefur í sjálfu sér lítið að skera niður í umsýslukostnaði – það er erfitt að lækka sjálfboðaliða í launum.  Niðurskurður felst í því að ekki er tekið þátt í verkefnum og íþróttaleg tækifæri fara forgörðum.  Það sem varhugavert er í því samhengi er að varanleg skörð kunna að hafa verið hoggin í langtímauppbyggingu, hvort sem er á vettvangi afreksíþrótta eða grasrótarstarfs, og kemur slíkt ekki í ljós fyrr en löngu síðar.

Fjárlagagerð ársins 2013 stendur yfir, og framundan er kosningavetur.  Ríkisstjórn Íslands hefur fyrir ári síðan lagt fyrir íþróttahreyfinguna stefnumótun í íþróttamálum fyrir árin 2011-2015, þar sem ljóst er að næsta ár markar helming þeirrar vegferðar þó fjárlög hafi ekki endurspeglað þá staðreynd.  Stefnan er að ýmsu leyti vel fram sett, en íþróttahreyfingin hefur réttilega bent á að markmið, leiðir og stefnumótun er innihaldslaus án viðeigandi úrræða.  Fjárveitingar eru þar grundvallaratriði.  Þótt íþróttahreyfingin hafi hvergi fjárhagslegan hagnað að sínum markmiðum þá eru fjárhagsleg framlög nauðsynleg til að ná fram íþróttalegum markmiðum hreyfingarinnar, og skapa þau alþjóðlegu afrek og það glæsilega afreksfólk sem sannarlega er æsku landsins fyrirmynd að betri framtíð.

Við óskir um fjárveitingar – eða að minnsta kosti úrbætur gagnvart skaða vegna skattahækkana, verðlags- og gengisþróunar, svo ekki sé minnst á endurheimt höfuðstóls þeirra samninga sem samið hafði verið um fyrir efnahagshrun – er vissulega vert að staldra við og ígrunda bakgrunn og þróun þeirra fjárhagsforsendna sem þessi stærsta fjöldahreyfing landsins byggir á.  Hreyfingin er í eðli sínu áhugamannahreyfing sem í reynd er ekki að fara fram á annað frá stjórnvöldum en framlög til grunnkostnaðar við að standa straum af endurgjaldslausri samfélagsþjónustu sem í senn veitir þegnum landsins ánægju og velferð, og sparar samfélaginu stórfé í formi útgjalda til félags- og heilbrigðismála.  Það ætti ekki að vera flókið að rökstyðja aukin framlög til slíks af hálfu stjórnvalda.

Íþróttahreyfingin sjálf þarf sannarlega að meta hver raunveruleg fjárþörf hreyfingarinnar er, og hvernig forgangsröðun einstakra starfseininga er til óska um aukið fjármagn og ráðstöfun þess er skipað í flóknum pýramída starfseminnar frá afreksíþróttum niður í grasrótarstarf.  Gæta þarf vel að því að tekjuúrræði og kröfur ógni aldrei ímynd og gildum íþróttahreyfingarinnar, og ennfremur að fjárframlög utanaðkomandi aðila, hvort heldur er stjórnvalda eða annarra, ógni aldrei sjálfstæði íþróttahreyfingarinnar.  Við forgangsröðun er mikilvægt að líta til þess að allt kerfið virki best sem heild.  Íþróttahreyfingin þarf að fara vel yfir alla sína tekjustofna, hámarka virði þeirra og þróa nýja sjálfbæra tekjustofna, jafnframt því að vera stöðugt á varðbergi varðandi útgjaldaliði og sýna ábyrgð og hagkvæmni í öllum rekstri.

Ekki verður litið framhjá ábyrgð ríkisvaldsins á tilteknum rekstrarþáttum íþróttahreyfingarinnar, og þá einkum þeim er lúta að þjóðinni sem heild – afreksstarfi, rekstri sérsambanda, lyfjaeftirliti, jöfnun ferðakostnaðar og almenningsíþróttaverkefnum svo dæmi séu tekin – og í reynd ekki síður starfsumhverfi í formi þjóðarmannvirkja og aðstöðu fyrir okkar landslið og fremsta afreksfólk.

Ólafur E. Rafnsson,
Forseti ÍSÍ