Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Forseti ÍSÍ í heimsókn hjá HSK

26.10.2014

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti, Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri og Örvar Ólafsson verkefnastjóri Afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ heimsóttu Héraðssambandið Skarphéðinn miðvikudaginn 22. október sl.   

Heimsóknin hófst í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar þar sem Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri HSK, Jóhannes Óli Kjartansson úr varastjórn HSK, Guðni Pétursson, bæjarritari, Ágústa Ragnarsdóttir úr bæjarstjórn Ölfuss og Hákon Hjartarson formaður Íþrótta- og æskulýðsnefndar Ölfuss tóku á móti hópnum. Í og við íþróttasmiðstöðina er að finna 25 m útisundlaug og innisundlaug ásamt góðu útisvæði, íþróttasal, þolfimisal og heilsurækt ásamt hefðbundnu útisvæði fyrir knattspyrnu- og frjálsíþróttaiðkun. Eftir ítarlega skoðun á þessum glæsilegu íþróttamannvirkjum var golfvöllurinn skoðaður sem og svæði hestamanna.   

Frá Þorlákshöfn lá leiðin til Hveragerðis og hófst heimsóknin þar á því að Hamarshöllin var skoðuð undir dyggri leiðsögn Guðríðar Aadnegard formanns HSK, Helgu Kristjánsdóttur skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar, Guðmundar Baldurssonar bæjartæknifræðings og Guðmundar Jónassonar gjaldkera HSK.  Hamarshöllin er fjölnota íþróttahöll með gervigrasvelli, níu holu púttvelli og fjölnota íþróttagólfi.  Íþróttahöllin er upphituð úr tvöföldum dúk sem er borinn uppi af innri loftþrýstingi og loftþrýstingi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki.  Hópurinn skoðaði einnig Sundlaugina í Laugaskarði og íþróttahús Hveragerðis.

Að lokum var ekið til Selfoss en byrjað á því að kíkja á golfvöllinn þar sem Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar og Örn Guðnason varaformaður HSK tóku á móti hópnum, ásamt  Ástfríði Sigurðardóttur formanni Golfklúbbs Selfoss, sem sagði frá því helsta úr starfi klúbbsins. Þaðan var haldið í Reiðhöll Hestamannafélagsins Sleipnis þar sem Magnús Ólason formaður tók á móti hópnum.  Loks var farið á íþróttasvæðið á Selfossi þar sem Guðmundur Kr. Jónsson formaður Umf. Selfoss, Gissur Jónsson framkvæmdastjóri og Sveinbjörn Másson framkvæmdastjóri knattpyrnudeildar leiddu hópinn um svæðið.  Farið var um knattspyrnusvæðið ásamt því að skoða íþróttahúsið og sundlaugarnar.

Eftir mannvirkjaskoðun á Selfossi var haldinn fundur með fulltrúum úr stjórn og varastjórn Héraðssambandsins Skarphéðins þar sem ýmis hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar voru rædd fram eftir kvöldi.

 

Myndir með frétt