Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
3

Rafleikir – liðsfélagi eða andstæðingur?

08.05.2019

Athygli íþróttahreyfingarinnar hefur beinst að rafleikjum nú nýverið, ekki síst í kjölfar frétta af því að stofna eigi deildir um slíka leiki hjá nokkrum íþróttafélögum innan ÍSÍ. Forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, fjallaði um málið í ávarpi sínu á 74. Íþróttaþingi ÍSÍ sem fram fór dagana 3.-4. maí sl.

Í íþróttalögum eru íþróttir skilgreindar sem hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti og í lögum ÍSÍ eru íþróttir skilgreindar sem ástundun líkamlegrar þjálfunar til keppni og heilsuræktar. Til að íþróttafélag fái inngöngu í íþróttahreyfinguna verður tilgangur þess að vera ástundun íþrótta og þá eins og það orð er skilgreint í lögum ÍSÍ og íþróttalögum.

Lárus sagði fæsta rafleiki falla undir þessar skilgreiningar og þau önnur gildi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir og geti í eðli sínu unnið gegn þeim ef litið er til þeirra neikvæðu þátta sem fylgt geta ástundun þeirra. Nefndi Lárus í því skyni kyrrsetu, spilafíkn, birtingarmyndir ofbeldis, neikvæðar staðalímyndir kynjanna og markmið með spilun bardagaleikja.

„Íþróttahreyfingin stendur fyrir skilgreint starf sem sannað er að hefur bæði íþrótta- og forvarnargildi í samfélaginu. Það sýna allar rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið í gegnum árin. Íþróttahreyfingin er einnig stór og öflug og þangað vilja margir sækja styrk. Sumum tökum við fagnandi þar sem það starf er þegar viðurkennt af alþjóðasamfélagi íþrótta og fellur vel að skipulagi okkar og gildum. Annað þarfnast frekari umhugsunar og skoðunar. Nú hafa rafleikir bankað á dyrnar og sýnt áhuga á að hljóta viðurkenningu íþróttahreyfingarinnar alþjóðlega og þá líka hér á Íslandi. Nokkur umfjöllun hefur verið hér á landi undanfarnar vikur um samstarf rafleikja við íþróttahreyfinguna. Fyrir íþróttahreyfinguna er stóra spurningin sú hvort rafleikir falli vel með starfsemi íþróttahreyfingarinnar eða séu hugsanlega í andstöðu við þau gildi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir. Það er því ekki auðvelt að sjá með hvaða hætti við ættum að geta horfið frá meginmarkmiðum hreyfingarinnar og tekið inn í okkar starf ástundun rafleikja“, sagði Lárus meðal annars í ávarpi sínu á þinginu.

Lárus velti því einnig upp hvernig þessi nýja viðbót myndi falla að aðstöðu íþróttafélaga og hvaða áhrif hún hefði á þá sem sækja hefðbundnar æfingar í íþróttum í sama húsnæði.

„Eigum við að bjóða upp á val; viltu fara inn í íþróttasal og stunda íþróttir eða viltu fara inn í tölvuleikjasalinn og setjast þar við tölvuna? Með því værum við augljóslega að fjölga til muna þeim sem gera rafleiki að sínu aðaláhugamáli á kostnað íþróttaiðkunar og e.t.v. að búa til mun stærra vandamál en verið er að reyna að leysa. Því held ég að það verði alltaf erfitt að heimfæra slíkt val upp á tilgang og hugmyndafræði íþróttahreyfingarinnar“, sagði Lárus.

Lárus sagði íþróttahreyfinguna gjarnan vilja hafa það sem markmið að vinna gegn einangrun barna og ungmenna og bæta félagslegar aðstæður þeirra, eftir því sem hreyfingin hefði tök á. Það hafi hreyfingin gert í gegnum tíðina og stærsti hluti barnastarfs hreyfingarinnar væri þannig upp sett að allir eigi þar möguleika til þátttöku án tillits til getu. Þá væri starfsemi Íþróttasambands fatlaðra augljóst dæmi um hvernig ástundun íþrótta bæti félagslegar aðstæður barna og ungmenna og vinni gegn einangrun þeirra. Íþróttahreyfingin vilji klárlega halda áfram á þeirri vegferð og auka við út frá gildum hreyfingarinnar eins og kostur er. Lárus lauk svo umfjöllun sinni um rafleiki með eftirfarandi orðum:

„Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort ÍSÍ sjái fyrir sér samstarf við samtök rafleikja í framtíðinni. Það þarf að meta möguleg jákvæð og neikvæð áhrif þess að gefa rafleikjum aðgang að íþróttahreyfingunni. ÍSÍ hefur sett á laggirnar vinnuhóp til að skoða ítarlega hvernig þessum málum verður best fyrir komið og jafnframt að fylgjast náið með ákvörðunum sem teknar verða innan Ólympíuhreyfingarinnar bæði alþjóðlega og í löndunum í kringum okkur. Hvorki Alþjóðaólympíunefndin (IOC) né systursamtök okkar á Norðurlöndum hafa samþykkt að taka rafleiki inn í sín samtök þrátt fyrir að einstaka félag innan þeirra vébanda hafi farið í samstarf við samtök rafleikja. Okkur ber að fylgja samþykktum Alþjóðaólympíunefndarinnar þegar nýjar íþróttagreinar óska eftir viðurkenningu frá ÍSÍ. Það er því eðlilegt að við horfum til þeirra við ákvarðanir um þessi mál. Skilaboð IOC eru þau að viðurkenning á rafleikjum sem íþrótt er ekki í sjónmáli eins og staðan er í dag, ekki síst hvað varðar rafleiki sem ganga gegn gildum hreyfingarinnar. Það á sérstaklega við um leiki sem ekki eru taldir við hæfi barna og ungmenna en barna og unglingastarf er undirstaðan í öllu starfi íþróttahreyfingarinnar. IOC fylgist vel með framvindu mála, ekki síst varðandi rafleiki sem líkja eftir ástundun íþrótta, með tilheyrandi líkamsþjálfun, sem gætu verið stuðningur við raunverulegar íþróttagreinar.“