Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Dagur í lífi afrekskonu í sundi

26.11.2019

Eygló Ósk Gústafsdóttir, afreksíþróttakona í sundi og Íþróttamaður ársins 2015 ætlar að leyfa fólkinu í landinu að fá innsýn í sitt líf nk. föstudag, 29. nóvember. Eygló Ósk mun taka yfir Instagram síðu ÍSÍ @isiiceland og taka upp sinn dag á Instagram Story.

Eygló Ósk er fædd árið 1995. Hún hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum, í London 2012 og í Ríó 2016, en hennar helsta sérgrein er baksund. Hún náði stórglæsilegum árangri á Evrópumeistaramóti í 25 m laug í Ísrael árið 2015 þegar hún vann til bronsverðlauna í baksundi. Eygló var kjörin Íþróttamaður ársins 2015 af Samtökum íþróttafréttamanna. Hún hefur fimm sinnum verið kjörin Sundkona ársins, 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015. Hún var kjörin Íþróttakona Reykjavíkur árin 2014 og 2015. Hún stefnir ótrauð á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Þeir sem vilja fylgjast með íslensku afreksíþróttafólki æfa, keppa og takast á við hversdagsleikann geta fylgt Instagram síðu ÍSÍ og fengið upplifunina beint í símann.