Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Sigmar og Sveinn sæmdir Gullmerki ÍSÍ

17.04.2023

 

Á ársþingi USVS þann 12.apríl sl. voru tveir heiðursmenn sæmdir Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttanna.  
Sigmar Helgason hefur verið tengdur íþróttum frá barnsaldri. Hann byrjaði ungur í félagsmálum og tók til starfa í stjórn Ungmennafélagsins Ármanns þegar hann var 16 ára. Hann hefur því í nærri 50 ár unnið fyrir félögin á svæðinu. Sigmar hefur tvisvar verið formaður USVS og síðustu ár hefur hann verið í stjórn USVS. Hjá Ungmennafélaginu Ármanni hefur hann verið í mörgun hlutverkum, s.s. formaður, stjórnarmaður, þjálfari, dómari og sjálfboðaliði. Þá hefur hann verið öflugur sjálfboðaliði hjá Hestamannafélaginu Kópi, komið að mótahaldi og fjáröflun félagsins. 
Sigmar hefur alltaf verið mjög áhugasamur um íþróttastarf á sambandssvæði USVS og honum þökkuð sín góðu störf í þágu íþróttanna á svæðinu.  
 

Sveinn Þorsteinsson hefur starfað fyrir Ungmennafélagið Kötlu á einn eða annan hátt frá upphafi félagsins, árið 2008.  Hann hefur starfað lengi fyrir USVS og m.a. verið formaður sambandsins um árabil. Sveinn hefur alltaf verið áhugasamur um starfsemi þess sambandsins og kom að stofnun Umf. Kötlu þegar tvö ungmennafélög í Mýrdalshreppi stofnuðu nýtt félag árið 2008. Án hans óeigingjarna starfs væri félagið ekki á þeim góða stað sem það er í dag. Sveinn er mjög áhugasamur um íþróttastarfið og hefur t.d. verið formaður kjörnefndar USVS síðustu ár.

Á myndinni má sjá þá Sigmar og Svein ásamt Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ og Garðari Svanssyni, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.  

ÍSÍ óskar Sigmari og Sveini innilega til hamingju með viðurkenningarnar sínar og þakkar fyrir framlag þeirra í gegnum árin!