Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
30

Breytingar á Ólympíuhópi ÍSÍ

09.04.2024

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kynnir breytingar á Ólympíuhópi ÍSÍ
Vegferðin á Ólympíuleikana í París 2024 heldur áfram!

Í upphafi árs var myndaður Ólympíuhópur ÍSÍ sem samanstendur af afreksíþróttafólki sem hefur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar eða hefur góða möguleika á að vinna sér þátttökurétt.

Nú þegar rúmlega 100 dagar eru þar til leikarnir hefjast, hafa verið gerðar breytingar á hópnum. Karlalandslið Íslands í handknattleik helltist úr lestinni eftir Evrópumeistaramótið og í febrúar og mars komu inn fjórir nýir keppendur; Baldvin Þór Magnússon, langhlaup, Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo og Svana Bjarnason, klifur.

Í Ólympíuhópi ÍSÍ er afreksíþróttafólk úr átta mismunandi íþróttagreinum, en í hverri íþróttagrein eru ólíkar leiðir til að tryggja sér þátttökurétt á leikunum.  Anton Sveinn McKee, sund, er sá eini sem hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á leikana en miklar vonir eru bundnar við að Ísland muni eiga öflugan hóp íþróttafólks á leikunum.
 
Ólympíuleikarnir eru stærsti íþróttavettvangur heims og þar keppa fremstu íþróttamenn heims hverju sinni, í íþróttagreinum 32 alþjóðasérsambanda.   

Hópurinn í dag samanstendur af þrettán keppendum úr einstaklingsgreinum sem allir eiga góða möguleika á því að tryggja sér þátttökurétt. Að auki hefur ÍSÍ möguleika á því að fá úthlutað boðssætum, en slíkt mun koma í ljós í byrjun sumars.  

Í Ólympíuhópnum eru:
Anton Sveinn McKee, sund 
Baldvin Þór Magnússon, 5000m hlaup
Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar
Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
Guðni Valur Guðnason, kringlukast
Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi
Hilmar Örn Jónsson, sleggjukast
Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
Svana Bjarnason, klifur
Thelma Aðalsteinsdóttir, áhaldafimleikar 
Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar

Á heimasíðu ÍSÍ má finna upplýsingar um keppendur. Sett hefur verið saman uppfært kynningarmyndband um Ólympíuhópinn og mun það birtast á næstunni auk mynda af keppendum á samfélagsmiðlum ÍSÍ og víðar.  

Afreksstjóri ÍSÍ, Vésteinn Hafsteinsson, heldur sem fyrr utan um Ólympíuhópinn. Vésteinn hefur áratuga reynslu af mótum sem þessum, bæði sem þjálfari og afreksíþróttamaður í kringlukasti, og hefur nú þegar tekið þátt í tíu Ólympíuleikum. 

Það er von ÍSÍ að hópurinn fái sem mesta athygli og stuðning svo árangur þeirra verði sem bestur!

Fyrir frekari upplýsingar eða spurningar, vinsamlegast hafið samband við Véstein Hafsteinsson (netfang: vesteinn@isi.is, sími: 846 1212)

Á myndinni til vinstri má sjá nýju keppendurna sem komnir eru inn í hópinn; Baldvin, og Erna Sóley fyrir ofan og Ingibjörg Erla og Svana fyrir neðan.  Á myndinni til hægri eru keppendurnir sem fyrir voru.  

Myndir með frétt