Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
9

Gísli Halldórsson látinn

12.10.2012

Gísli Halldórsson arkitekt og Heiðursforseti ÍSÍ lést á Hjúkrunarheimilinu Eir að kvöldi mánudags 8. október síðastliðins, 98 ára að aldri. 

Ferill Gísla í íþróttahreyfingunni á Íslandi var einstakur.  Í starfi sínu sem arkitekt teiknaði hann fjölmörg félagsheimili og íþróttamannvirki, m.a. íþróttaleikvanginn í Laugardal og Laugardalshöllina.  Gísli var lengi borgarfulltrúi og var forseti borgarstjórnar um fjögurra ára skeið.  Hann var einnig formaður í stjórn íþróttavallanna í Reykjavík 1958-1961 og formaður Íþróttaráðs 1961-1974.  Gísli starfaði um árabil fyrir Knattspyrnufélag Reykjavíkur og var formaður bygginganefndar KR í tæp 30 ár.  Hann var í stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur frá stofnun þess 1944 til ársins 1962, þar af formaður í 13 ár. Forseti Íþróttasambands Íslands var hann árin 1962-1980 og átti sæti í Ólympíunefnd Íslands 1951-1994, þar af formaður í 22 ár. 

Gísli hlaut fjölmargar viðurkenningar, bæði á vettvangi íþróttanna og vettvangi annarra félagasamtaka. Hann var m.a. Heiðursforseti ÍSÍ frá 1994, heiðursfélagi í KR frá 1974 og heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands frá 2002.   Gísli var einnig vel þekktur á alþjóðavettvangi íþróttanna og þar mikils metinn. Hann hlaut Heiðursorðu Alþjóðaólympíunefndarinnar árið 1983, Heiðursorðu Ólympíunefndar Litháens árið 1991 og Gullorðu Heimssambands ólympíunefnda  árið 2002. Gísli hlaut riddarakross fálkaorðunnar árið 1963 og stórriddarakross fálkaorðunnar árið 1974.

Eiginkona Gísla var Margrét Halldórsdóttir.  Margrét lést árið 1987. Sonur þeirra er Leifur Gíslason byggingarfræðingur.

Íþróttahreyfingin á Íslandi er afar þakklát fyrir það óeigingjarna og mikla starf sem Gísli vann í þágu íþrótta á Íslandi.  Með eljusemi og einlægum áhugi sínum á starfi íþróttahreyfingarinnar allt fram á síðasta dag var Gísli okkur öllum mikil fyrirmynd.