Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
9

Háskóli Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands styrkja samstarf sitt

27.11.2012Auknar rannsóknir á sviði íþrótta og efling íþróttastarfs eru meðal áhersluefna í viljayfirlýsingu um samstarf sem Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, undirrituðu í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal í dag.

Háskóli Íslands (HÍ) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem á þessu ári heldur upp á aldarafmæli sitt, hafa um árabil átt gott samstarf en með viljayfirlýsingunni er ætlunin að setja samstarfið í ákveðnari og skýrari farveg. Möguleikar á samstarfi liggja víða. Til að mynda má auka samstarf ólíkra fræðigreina innan Háskóla Íslands við ÍSÍ á breiðum grundvelli.

Í viljayfirlýsingunni sammælast HÍ og ÍSÍ um að vinna í sameiningu að fjölbreyttum verkefnum. Þannig á að vinna að uppbyggingu og framgangi afreksmiðstöðvar í íþróttum, efla faglegt umhverfi íþróttahreyfingarinnar með þátttöku fræðasviða Háskólans. Þá hyggjast HÍ og ÍSÍ standa sameiginlega að ráðstefnum og málþingum með aðkomu innlendra og erlendra aðila.

Enn fremur ætla HÍ og ÍSÍ að vinna saman að eflingu grunn- og símenntunar íþróttaþjálfara á sem flestum stigum íþróttastarfsins og auka jafnframt þróunarstarf og rannsóknir á sviði íþrótta. Það verður m.a. gert með því að beina framhaldsnemum við háskólann í verkefni sem tengjast íþróttum, til dæmis rannsóknir á sviði afreksíþrótta, barna- og æskulýðsstarfs, íþróttastjórnunar, almenningsíþrótta og lyfjamála.

Skipaður verður sérstakur samstarfshópur til tveggja ára með tveimur fulltrúum frá hvorum aðila og verður það í verkahring hans að fylgja viljayfirlýsingunni eftir.
Kristín Ingólfsdóttir rektor sagði við þetta tilefni: „Íþróttahreyfingin hefur kennt okkur margt, m.a. hversu mikilvægt er að hafa skýr markmið og að sameina krafta. Með undirritun viljayfirlýsingarinnar vill Háskóli Íslands leggja sitt lóð á vogarskálarnar við eflingu almennings- og afreksíþróttastarfs í landinu og um leið gefa vísindamönnum og nemendum tækifæri til rannsókna- og þróunarstarfs í þeim fjölmörgu greinum innan skólans sem tengjast íþróttafræðum. Ég ber miklar væntingar til samstarfs Háskóla Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og þeirra tækifæra sem í því felast.“

Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, sagði af þessu tilefni: „Íþróttastarfsemi verður sífellt flóknari og ljóst að fleiri snertifletir við akademíska aðferðafræði og rannsóknir munu skapa ný tækifæri til þróunar og vaxtar.  Samstarf við Háskóla Íslands getur opnað nýjar dyr fyrir íslenska íþróttahreyfingu og við erum ánægð með þetta skref sem tekið er í dag.“
Í tilefni samstarfsins verður á morgun haldin ráðstefna í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 13. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Skipta íþróttir máli?“ og er tilgangur hennar m.a. að vekja athygli á því hvernig margþætt vísinda-, kennslu- og nýsköpunarstarf Háskóla Íslands getur styrkt starfsemi og stöðu íþrótta í íslensku samfélagi.
Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.