Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

Hreyfitorg er nú opið

18.09.2013

Gagnvirki vefurinn Hreyfitorg opnaði fyrir helgi. Meginmarkmið Hreyfitorgs er að auðvelda þeim sem leita eftir þjónustu fyrir sig eða aðra, t.d. foreldrum og ýmsu fagfólki að finna hreyfingu sem samræmist getu og áhuga hverju sinni og stuðlar að heilbrigði og vellíðan. Hreyfitorgi er þannig m.a. ætlað að styðja við uppbyggingu kerfis um ávísun á hreyfingu, svonefnds Hreyfiseðils. Sérstök áhersla er á að stuðla að auknu  framboði á einfaldri og ódýrri hreyfingu sem flestir ættu að geta stundað.

Hreyfitorg er snjallvefur sem aðlagar sig sjálfkrafa að þeirri skjástærð sem er notuð hverju sinni. Þjónustuaðilar sem bjóða upp á hreyfingu sem samræmist markmiðum Hreyfitorgs geta sótt um að kynna sína þjónustu á vefnum, sér að kostnaðarlausu. Til að forðast birtingu úreldra upplýsinga fá þeir reglulega áminningu um að endurskoða skráninguna. Þjónustuaðilar greiða ekki fyrir innskráningu á Hreyfitorg og þar með fyrir kynningu á sinni þjónustu.

Sterkir aðilar standa að baki Hreyfitorgi sem hafa innan sinna raða öflugt net þjónustuaðila á sviði hreyfinga og góð tengsl við væntanlega notendur. Embætti landlæknis hafði umsjón með uppbyggingu Hreyfitorgs en Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur nú tekið við umsjón vefsins. Aðrir aðstandendur Hreyfitorgs eru Félag sjúkraþjálfara, Íþróttakennarafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Reykjalundur, Ungmennafélag Íslands og VIRK starfsendurhæfingarsjóður.

Í samræmi við meginmarkmið Hreyfitorgs var samtímis opnuninni haldið málþingið Þjálfun almennings – ábyrg þjónusta upplýst val. Þar var hnykkt á mikilvægi þess að bæði þjónustuaðilar og neytendur séu meðvitaðir og ábyrgir þegar kemur að því að bjóða og velja þjónustu á sviði hreyfingar. Mikilvægt er að þjónustuaðilar vandi upplýsingagjöf og hafi forsendur (s.s. menntun, reynslu og aðstöðu) til að standa fyrir þeirri þjónustu sem þeir eru með í boði. Að sama skapi er mikilvægt að neytendur spyrji spurninga og taki upplýsta ákvörðun til að velja sér þjónustu í samræmi við getu og áhuga. Á málþinginu kom einnig fram að í tengslum við tilraunaverkefni Velferðarráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu Hreyfiseðils hjá 17 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit.

Nánari upplýsingar um Heyfitorg eru á www.hreyfitorg.is

Meðfylgjandi myndir:

1. Geir Gunnlaugsson landlæknir og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ undirrita samstarfssamning vegna Hreyfitorgs. ÍSÍ tekur nú við umsjón vefsins. 

2. Aðstandendur Hreyfitorgs sem skrifuðu undir samstarfssamning vegna vefsins við opnunina
Frá vinstri: Jón Steinar Jónsson heimilislæknir f.h. Læknafélags Íslands, Magnús Ólason yfirlæknir verkjasviðs og faglegur framkvæmdastjóri á Reykjalundi, Guðrún V. Ásgeirsdóttir formaður Íþróttakennarafélags Íslands, Geir Gunnlaugsson landlæknir, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, Unnur Pétursdóttir formaður Félags sjúkraþjálfara og Ása D. Konráðsdóttir sviðsstjóri starfsendurhæfingar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Myndir með frétt