Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
16

Jákvæð áhrif íþróttaiðkunar á líðan ungmenna

11.11.2013

Frá árinu 1992 hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk.   Hefur Ísland verið í fararbroddi þróunar á rannsóknum af þessu tagi mörg undanfarin ár. Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili. Þær þykja einstæðar á heimsvísu m.a. sökum þess að þær ná til allra ungmenna í landinu sem mættir voru í skólann þá daga sem rannsóknin var lögð fyrir. 

Þann 7. nóvember sl. voru kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar og þar kom m.a. fram að mikil aukning hefur orðið frá árinu 2007 á íþróttaiðkun (4x í viku eða oftar) og þá sérstaklega meðal stelpna.  Árið 2007 sögðust um 29% stelpna æfa eða keppa með íþróttafélagi 4x í viku eða oftar en nú, árið 2013, segja um 42% stelpna að þær æfi eða keppi þetta oft.   Einnig kom fram að nemendur sem æfa íþróttir með íþróttafélagi eru síður líklegir til að upplifa sig einmana (sl. sjö daga fyrir könnun).  Um 17% nemenda sem segjast aldrei æfa íþróttir sögðust stundum eða oft finna fyrir einmanaleika á meðan hlutfallið er 7% meðal nemenda sem æfa fjórum sinnum í viku eða oftar.

Heildarniðurstöður úr rannsókninni verða gefnar út á bók og birtar á vef ráðuneytisins og Rannsóknar og greiningar ehf.