Seinni umferð í stórsvigi kvenna hefst kl. 09:00
Nú kl. 09:00 hefst seinni umferð í stórsvigi kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sochi en þar keppa Helga María Vilhjálmsdóttir og Erla Ásgeirsdóttir. Helga María er í 51. sæti og Erla í 57. sæti eftir fyrri umferðina sem fram fór snemma í morgun. Besta tímanum í fyrri umferðinn náði Tina Maze frá Slóveníu en hún hefur þegar unnið til gullverðlauna í bruni á leikunum.
Í seinni umferð ræsa 30 efstu keppendurnir í öfugri tímaröð og síðan verða keppendur ræstir eftir röð í fyrri umferðinni. Alls voru 90 keppendur skráðir til leiks og af þeim náðu 74 niður í morgun. Helga María ræsir númer 51 og Erla númer 57.
Tíminn hjá Helgu Maríu í fyrri ferðinni var 1:26,39 mín. eða 8,51 sekúndum á eftir Maze en Erla kom í mark á 1:30,15 eða 12,27 sekúndum á eftir Maze.
Myndin var tekin af þeim Erlu og Helgu Maríu eftir fyrri ferðina í morgun.