Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

Viðtal við Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðing

14.05.2014

Dr. Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur kynnti niðurstöður íþróttahluta framhaldsskólakönnunar R&g á hádegisfundi ÍSÍ, en ÍSÍ fékk að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar sem lúta að ánægju unglinga með íþróttafélagið, þjálfarann, aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig voru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og sjálfsmynd. Kannanir R&g hafa verið í gangi í 20 ár, en spurningar eru lagðar fyrir alla krakka á Íslandi á sama tíma; tíu þúsund grunnskólanemendur í 8, 9 og 10 bekk og tíu þúsund framhaldsskólanemendur.

Er eitthvað nýtt sem kemur út úr rannsókninni?

Með könnunum R&g höfum við í gegnum árin séð sterk gildi skipulegs íþróttastarfs. Þau börn og ungmenni sem stunda slíkt starf standa betur að vígi. Starfið hefur félagslegan ávinning í för með sér; því oftar sem ungmenni stunda skipulagða íþróttastarfsemi því ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna, þau standa sig yfirleitt vel í námi, eiga í góðum samskiptum, hafa góða sjálfsímynd og svo mætti lengi telja. Þetta hefur sýnt sig í gegnum tíðina hjá grunnskólanemendum, en í þetta sinn var athyglisvert að sjá niðurstöðuna hjá framhaldsskólanemendum. Við skoðuðum hvort að þetta taumhald sem er á yngri íþróttaiðkendum fylgi þeim eftir yfir í framhaldsskólann.  Helstu niðurstöðurnar eru þær að skipulögð íþróttaþátttaka virðist hafa mjög jákvæð gildi fyrir iðkendur. Umgjörð íþróttastarfs breytist í gegnum tíðina, en það virðist alltaf vera eitthvað við skipulagða íþróttastarfsemi sem hefur forvarnargildi. Það er ýmislegt mjög jákvætt að gerast í skipulagðri íþróttastarfsemi, einhverskonar taumhald og einhver jákvæð skilaboð og umgjörð sem að börn og unglingar starfa í.

Eru íþróttir það sama og íþróttir?

Nei, það er ekki hægt að setja allar íþróttir undir sama hatt. Og hvað eru íþróttir? Skilgreiningin á því er mjög víð. Í víðri skilgreiningu íþrótta getur nánast allt verið íþrótt. En munurinn liggur í skipulögðu og óskipulögðu íþróttastarfi. Skipulagt íþróttastarf fer fram í gegnum félög og er reglumiðað en óskipulagt er sjálfsprottið og leikmiðað, til dæmis í líkamsræktarstöðvum, án þjálfara og án umgjarðar. Við erum búin að sjá það í meira mæli að það er mikill munur á þeim sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi, sem njóta þess góða ávinnings sem að sú umgjörð hefur í för með sér, og þeirra sem stunda íþróttir utan íþróttafélaga. Þeir sem stunda óskipulagt íþróttastarf, jafnvel oft í viku, eru jafnvel líklegri til þess að neyta vímuefna heldur en þeir sem ekkert íþróttastarf stunda. Þar er kominn lykilpunktur, við getum ekki sett allt íþróttastarf undir einn hatt heldur verðum við að átta okkur á því að það er leikið undir mismunandi forsendum, með mismunandi hætti, á mismunandi stöðum. Það er jafnvel erfitt að segja að það sé algilt að íþróttir séu góðar og heilbrigðar, heldur fer það eftir umgjörðinni og starfinu hverju sinni. Það má túlka niðurstöðurnar þannig að íþróttafélögin á Íslandi eru að vinna nokkuð gott starf hvað þetta varðar.

Hvað er það þá sem stendur upp úr?

Það virðist vera eitthvað í umgjörð skipulags íþróttastarfs sem hefur forvarnargildi. Hvað það er er síðan spurningin. Það gæti til dæmis verið vegna þess að mörg félög eru aldargömul og þar er mikil hefð og saga, þekking og reynsla, þar eru reglur, viðmið og námsskrár um hvernig á að vinna, þar er skipulögð keppni og markmið, þjálfaramenntun hefur aukist og þjálfarar eru fyrirmyndir og þar er virkt foreldrastarf. Það virðist vera þannig að þegar að foreldrar eru tengdir starfi barna sinna þá dregur það úr neikvæðu atferli. Það hefur eitthvað forvarnargildi.

Hvaða niðurstöður komu út í sambandi við heilsufar og hamingju í tengslum við íþróttir?

Þeir sem æfa skipulagt íþróttastarf oft í viku eru ánægðari með lífið, telja sig hamingjusamari, eru með betri sjálfsímynd og svo framvegis heldur en hinir. Niðurstöðurnar eru alltaf mjög jákvæðar fyrir þessa skipulögðu íþróttastarfsemi.

Eru þá þeir sem eru í góðum farvegi ekki bara líklegri til að fara í íþróttir heldur en hinir sem eru í áhættuhópum?

Svarið er ekki einfalt við því. Það getur að einhverju leyti verið rétt, en við höfum ekki fundið slíkt í okkar gögnum. En umhverfið skiptir greinilega miklu máli í sambandi við neyslu vímuefna. Helsti áhættuhópurinn er að eiga vini sem drekka áfengi. Því fleiri vini sem þú átt sem drekka áfengi því líklegri ert þú til þess að drekka áfengi. Þegar við skoðum breyturnar „áfengisneysla“ og „fjöldi vina sem drekka áfengi“ sjáum við að þrátt fyrir að allir vinir þínir drekki áfengi ertu mun ólíklegri til að drekka áfengi ef þú ert í íþróttum heldur en ef allir vinir þínir drekka og þú ert ekki í íþróttum. Þetta er ákveðin vísbending um það að það séu einhver forvarnargildi í skipulagða íþróttastarfinu.

Er allt íþróttastarf fyrir utan skipulagða íþróttastarfsemi þá slæmt?

Nei, við erum ekki að segja það. Það eru ákveðnar hættur sem fylgja íþróttastarfi utan skipulagðrar starfsemi. Við sjáum þarna ákveðna neikvæða þróun sem við verðum að hugsa um og skoða. Við þurfum bara að vera vakandi fyrir því. En það er mjög margt jákvætt sem rannsóknir segja að eigi sér stað í slíku starfi, starfi sem er ekki undir umsjón fullorðinna, að það hjálpi ungu fólki að læra á lífið, að taka ábyrgð, skipuleggja sig, leysa úr vandamálum, það ýtir undir frumkvæði, sjálfstæði og alls kyns slíka kosti sem gott er að búa yfir. Það væri gott fyrir skipulagða íþróttastarfið að ná þessum þáttum enn frekar inn í starfið, að krakkar fái að sýna frumkvæði og gera hlutina á sínum forsendum.

Er það þá næsta áskorun íþróttafélaga? Getur þú skýrt það nánar?

Það sem er spennandi að gera er að sameina kosti formlegrar og óformlegrar íþróttastarfsemi. Það er gott að hafa samspil á milli, bæði er hægt að fylgja reglum og að sýna frumkvæði. Í óformlegri starfsemi hafa iðkendur mögulegt svigrúm til að bæta sig, til dæmis með því að sýna frumkvæði, taka ábyrgð og fleira.

Getum við þá gert enn betur innan skipulegs íþróttastarfs?

Já, það er alltaf hægt að bæta sig. Það væri til dæmis sniðugt fyrir íþróttafélög að kenna leiðtogahæfni og virkja leiðtoga og fyrirliða innan félaganna betur. Það þarf að skilgreina hlutverk fyrirliða innan félaga betur, svo að allir geri sér grein fyrir því hvað felst í því verkefni. Sumir hafa verið fyrirliðar í mörg ár, en gera sér ekki almennilega grein fyrir því hvað í því felst. Þetta ræðst svolítið af leiðtogum hjá því íþróttafólki sem er að æfa. Ef það eru öflugir einstaklingar til staðar þá þurfa þjálfarar að nálgast þá og fá þá í lið með sér. Fá þá einstaklinga til að vera öflugar fyrirmyndir. Sterku leiðtogarnir útdeila góðu í hina, smita út frá sér. Ein hugmynd er sú að í stað þess að skipa einn fyrirliða, eins og hefur tíðkast, væri hægt að vera með fyrirliðavikur, þar sem einstaklingar innan hópsins skiptast á að vera fyrirliðar. Þá finna allir fyrir ábyrgð og læra jafnvel hvað felst í því að vera fyrirliði; að vera góð fyrirmynd, mæta á réttum tíma, vera jákvæður o.s.frv..

Hér má sjá tengil á viðtal við Viðar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 þann 13. maí 2014.