Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

Alþjóðlegi Ólympíudagurinn í dag

23.06.2014

Á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega Ólympíudaginn þann 23. júní út um allan heim. Þessi viðburður er í tilefni af því að 23. júní árið 1894 var Alþjóða Ólympíunefndin stofnuð og nútíma Ólympíuleikarnir urðu til. ÍSÍ skipuleggur daginn í samstarfi við íþróttahreyfinguna, en hér á landi hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur undanfarin ár. Markmiðið með deginum er að hvetja fólk til að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman, en dagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþema í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Þess vegna er kjörið að bjóða upp á ýmiss konar íþróttir og þrautir, en ekki einungis íþróttir sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og ávallt að gera sitt besta.

Þeir sem taka þátt í Ólympíudeginum stendur ýmislegt til boða, til dæmis að fá lánaðan afmælisfána ÍSÍ með Ólympíuhringjunum og geta flaggað í tilefni dagsins, viðurkenningarskjöl fyrir sína þátttakendur, Ólympíukyndil frá Ólympíuleikunum í London 2012 til þess að hlaupa með og skoða og fá heimsókn frá íslensku íþróttafólki úr fremstu röð. Það sem er spennandi að gera á Ólympíudeginum í ár og á næsta ári er að tengja hann við Smáþjóðarleikana sem haldnir verða á Íslandi 1.- 6. júní 2015. Íslendingar eiga frábært íþróttafólk sem stefnir hátt á leikunum. Hér er gott tækifæri til að kynna afreksíþróttafólk og afreksíþróttir fyrir ungu fólki.

ÍSÍ hvetur sérsambönd, íþróttafélög og frístunda- og tómstundanámskeið til þess að taka þátt, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna hér á heimasíðunni undir „Ólympíudagurinn“.

Frekari upplýsingar veita:

Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri ÍSÍ: alvar@isi.is

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ: ragnhildur@isi.is



Myndir með frétt