Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Forvarnardagurinn 2014 á morgun

30.09.2014
Forvarnardagurinn 2014 verður haldinn í grunnskólum og framhaldsskólum landsins miðvikudaginn 1. október. Forvarnardagurinn er nú haldinn í níunda sinn í grunnskólum landsins og í fjórða sinn í framhaldsskólum.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur í skólunum um hugmyndir sínar og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Hugmyndir og tillögur nemenda eru svo teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, www.forvarnardagur.is. Þá gefst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka og eru þar verðlaun í boði. Upplýsingar um daginn eru einnig aðgengilegar á Fésbók undir Forvarnardagur.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstandendur Forvarnardagsins auk forsetaembættisins eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Félag íslenskra framhaldsskóla og Rannsóknir og greining. Forvarnardagurinn er skipulagður með stuðningi lyfjafyrirtækisins Actavis.

Meginmarkmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á því hvaða ráð hafa reynst best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði áfengi og fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í formlegu íþrótta- og tómstundastarfi og samverustundir með fjölskyldunni.

Á Íslandi hefur náðst afar góður árangur í baráttu gegn notkun áfengis og tóbaks á grunnskólastigi. Það þakka menn ýmsum þáttum. Margvíslegt tómstundastarf hefur mikið gildi í þeim efnum, svo sem starf skáta, ungmennafélaga og íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt skiptir afar miklu máli að foreldrar ræði við börn sín og unglinga um valkostina í frístundastarfi og þá staðreynd að líkurnar á að áfengisnotkun verði síðar vandamál minnka stórlega með hverju ári sem unglingar draga það að bragða áfengi.

Nýlegar, athyglisverðar rannsóknir á íþróttastarfi ungmenna benda til að þær hafi þá aðeins forvarnargildi ef þær eru stundaðar með formlegum og skipulegum hætti. Þetta ætti að vera unglingum og öðrum sem hlut eiga að máli umhugsunarefni og gefur þeim aukna ástæðu til að stunda íþróttir innan ramma íþrótta- og frístundafélaga.

Rannsóknir á undanförnum árum hafa líka leitt þetta í ljós:

  • Jákvæð þróun með minnkandi notkun áfengis og tóbaks heldur áfram í íslenskum grunnskólum.
  • Íslenskir grunnskólanemar standa mjög vel í alþjóðlegum samanburði í þessum efnum. 
  • Veruleg aukning verður í notkun á áfengi á fyrsta ári í framhaldsskóla og telja margir nemar að foreldrar láti það óátalið að þau noti áfengi eftir að þau eru komin í framhaldsskóla.
  • Notkun á áfengi og tóbaki hefur engu að síður farið heldur minnkandi í íslenskum framhaldsskólum á undanförnum árum.

Hægt er að lesa meira um forvarnardaginn á heimasíðunni www.forvarnardagur.is