Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Málþing um andlega líðan íþróttamanna gekk vel

10.09.2015

Í gær miðvikudaginn 9. september héldu ÍSÍ, KSÍ og HR málþing um andlega líðan íþróttamanna. Húsfyllir var á málþinginu og greinilegt að umræða um þetta málefni er þörf og þá möguleg úrræði.

Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttafræðasviðs HR tók fyrst til máls en hún fjallaði um geðrænan vanda og algengi hans hjá íþróttamönnum. Hafrún kynnti einnig niðurstöður rannsóknar Margrétar Láru Viðarsdóttur íþróttafræðings sem unnin var við Íþróttafræðasvið HR. Samkvæmt niðurstöðum úr rannsóknum Margrétar Láru er kvíði meiri hjá íslenskum atvinnumönnum í boltagreinum en hjá almenningi á sama aldri. Sagði Hafrún að hugsanlegar skýringar á því væru að margir streituvaldandi þættir væru í umhverfi íþróttamannsins og nefndi m.a. væntingar um frammistöðu og pressu frá félagi, fjölmiðlum og styrktaraðilum. Íþróttakonur eru mun líklegri til að þjást af andlegum kvillum en karlar. Hafrún nefndi einnig að þekking og úrræði við andlegum kvillum væru lítil innan íþróttahreyfingarinnar á meðan að úrræði við líkamlegum kvillum væru mjög þekkt.

Næstur á mælendaskrá var Sævar Ólafsson íþróttafræðingur með erindið sitt ,,Íþróttaiðkun í mótvindi og svartnætti“. Í erindinu kynnti hann niðurstöður úr lokaverkefni sínu við Íþróttasvið HR og sagði frá glímu sinni við þunglyndi samhliða knattspyrnuiðkun. Í verkefninu tók hann viðtöl við þrjá íþróttamenn og tvo stjórnarmenn í íþróttafélagi en íþróttamennirnir höfðu allir glímt við þunglyndi og kvíða.

Að lokum sagði Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður frá glímu sinni við geðræna erfiðleika en eftir að hann steig fram með sinn vanda þá hafa margir knattspyrnumenn sagt frá sinni glímu. Góðar umræður sköpuðust að erindunum loknum.

Málþingið var tekið upp og mun upptakan birtast á heimsíðu ÍSÍ innan fárra daga.

Myndir með frétt