Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
21

Uppskerutími

07.10.2015

Eftir viðburðarríkt sumar þar sem Smáþjóðaleikarnir stóðu upp úr í starfi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, byrjar haustið af miklum krafti og hefur nú þegar fært okkur frækileg íþróttaafrek. Sum hver svo stór að þau munu seint gleymast.

Í fyrsta skipti munum við eiga karlalandslið í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Hingað til hefur kvennalandsliðið haldið uppi heiðri Íslands á þeim vettvangi en nú munum við einnig geta státað okkur af karlalandsliði á EM. Þetta íþróttaafrek hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana enda hefur svo fámenn þjóð aldrei fyrr komið liði sínu á slíkt stórmót í knattspyrnu.
Karlalandsliðið í körfuknattleik tók í fyrsta sinn þátt í lokakeppni Evrópumótsins í körfuknattleik í Berlín og stóð sig með miklum sóma. Liðið sýndi feikilega baráttu í erfiðum riðli og náði að velgja andstæðingum sínum verulega undir uggum. Karlalandsliðið í handknattleik keppti í úrslitakeppni HM í Qatar í janúar sl. og mun taka þátt í úrslitakeppni EM í janúar á næsta ári og hafa Íslendingar þá tekið þátt í úrslitakeppni EM í þremur hópíþróttagreinum á nokkrum mánuðum. Ekki lítið afrek hjá lítilli þjóð!

Þegar litið er til baka á þessi afrek þá gleymist heldur ekki þáttur áhorfenda sem hreinlega slógu í gegn á öllum leikjum. Stuðningsmenn körfuknattleiksliðsins á EM í Berlín vöktu gríðarlega athygli fyrir mikla gleði og þrautseigju í stúkunni og líklega mun enginn gleyma stemningunni á Laugardalsvellinum eftir jafnteflisleik Íslands og Kazakstan þegar ljóst varð að Ísland hefði náð takmarki sínu um þátttöku í EM. Samstaðan og stuðningurinn var beinlínis áþreifanlegur.

Í einstaklingsíþróttum höfum við einnig verið að gera það gott en á síðustu mánuðum höfum við, meðal annars, eignast Evrópumeistara í kraftlyftingum og heimsmeistara unglinga í kraftlyftingum og skemmst er einnig að minnast frábærs árangurs sundlandsliðs okkar sem sló í gegn á HM í sundi með sannkölluðu metaregni. Glæsilegur árangur náðist einnig á HM íslenska hestsins í ágúst.

Ofangreind íþróttaafrek hafa vakið athygli heimsins á Íslandi og einnig vakið upp margar spurningar um hverju megi þakka þennan góða árangur. Rýnt hefur verið í aðstöðumál og þjálfaramenntun ásamt þjóðareinkennum í leit að skýringum. Við sem störfum í íþróttahreyfingunni teljum að margir þættir spili inn í og að ekkert einhlítt svar sé til. Aðstaða til íþróttaiðkunar er almennt mjög góð á landsvísu og ástundun t.d. í knattspyrnu er nú orðin möguleg allt árið í flestum landshlutum þó oft þurfi að aka umtalsverða vegalengd á æfingar. Þjálfaramenntun hérlendis er góð og áhersla ÍSÍ og sérsambanda á mikilvægi þjálfaramenntunar á öllum stigum þjálfunar fyrir alla aldurshópa, er án efa að skila sér í þessum góða árangri.

Á Íslandi er einnig mikil áhersla lögð á þátttöku barna og unglinga í íþróttum og frístundastarfi enda liggja fyrir afgerandi niðurstöður rannsókna um að slík þátttaka viðhaldi heilbrigði líkama og sálar.
Mér er efst í huga þakklæti til allra sem taka virkan þátt í uppbyggingu íþróttastarfs á Íslandi með einum eða öðrum hætti og þeirra sem gera að lífsstarfi sínu að hugsa um æsku og ungmenni landsins með uppbyggilegum hætti. Íþróttaafrekum fylgir byr í seglin, ekki bara hjá íþróttahreyfingunni heldur einnig allri þjóðinni sem hrífst með og fyllist stolti og bjartsýni gagnvart framtíðinni. Það er trú mín að árangur síðustu mánaða sé engin tilviljun heldur forsmekkur að enn frekari afrekum.

Ég hlakka til að fylgjast með á hliðarlínunni og styðja okkar fólk. Það gerir öll þjóðin.