Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Miðasala er hafin á Reykjavíkurleikana 2016

16.12.2015

Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir fara fram í níunda sinn dagana 21.- 31.janúar 2016. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík ásamt dyggum samstarfsaðilum sem standa að leikunum. Reykjavíkurleikarnir eru mikil íþróttahátíð þar sem keppt er í 20 einstaklingsíþróttagreinum. Íþróttagreinarnar eru: badminton, bogfimi, borðtennis, dans, frjálsíþróttir, glíma, hjólreiðar, júdó, karate, keila, kraftlyftingar, listskauta, ólympískar lyftingar, skíði, skíða- og snjóbrettaat, skotíþróttir, skvass, skylmingar, sund og sund fatlaðra og taekwondo. Flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni hans.

Reiknað er með að á fimmta hundrað erlendra gesta komi hingað til lands vegna leikanna og státa margir þeirra af góðum árangri á heimsmælikvarða. Skráning í flestar greinar stendur enn yfir en það skýrist nánar á næstu dögum og vikum hverjir taka þátt.

Sala á aðgangspössum sem veita aðgang að öllum 20 keppnisgreinum leikanna er hafin á tix.is og midi.is. Aðgangspassinn kostar 5.000 kr en stakur aðgangur að hverri keppni kostar 1.000 kr. Það er því óhætt að segja að aðgangspassinn sé góð kaup fyrir íþróttaáhugafólk.

Nýlega var skrifað undir samkomulag þess efnis að RÚV verður með níu útsendingar frá leikunum. Einnig gerir RÚV tvo samantektarþætti þar sem helstu úrslitum hvorrar keppnishelgar verða gerð góð skil.

Á meðfylgjandi mynd eru Gústaf Adolf Hjaltason, formaður undirbúningsnefndar Reykjavíkurleikanna, og Hilmar Björnsson, íþróttastjóri RÚV, að undirrita samkomulagið.

Upplýsingar um Reykjavíkurleikana má finna á eftirfarandi miðlum:

Upplýsingasíða á ensku www.rig.is
Facebook
Twitter
Instagram
Youtube

Myndir með frétt