Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
19

Vetrarólympíuleikum ungmenna slitið

21.02.2016

Öðrum Vetrarólympíuleikum ungmenna sem fram fóru í Lillehammer í Noregi var slitið við hátíðlega athöfn fyrr í kvöld. Fánaberi við lokaathöfnina var Dagur Benediktsson keppandi í skíðagöngu.

Á leikunum keppti Dagur í göngukrossi, sprettgöngu og 10 km göngu með hefðbundinni aðferð. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í risasvigi, stórsvigi og svigi. Bjarki Guðjónsson keppti í stórsvigi og svigi. Á Vetrarólympíuleikum ungmenna er takmarkaður fjöldi þátttakenda og keppnin mjög hörð. Aðeins þeir allra bestu frá hverju landi hafa tækifæri til að keppa fyrir sína þjóð. Íslensku keppendurnir lögðu sig öll fram og tókst að bæta punktastöðu sína í nokkrum greinum.

Nánari upplýsingar um úrslit má finna bæði á þessari síðu og á heimasíðu leikanna www.lillehammer2016.com

Á Vetrarólympíuleikunum tóku um 1.100 keppendur þátt frá 70 löndum. Auk Lillehammer fór keppni einnig fram í Hamar, Gjøvik og Osló. Norðmenn búa vel að mannvirkjum frá Ólympíuleikunum sem haldnir voru hér árið 1994. Aðstandendur, skipuleggjendur og sjálfboðaliðar hafa staðið sig afskaplega vel á öllum sviðum. Mikill fjöldi Norðmanna fylgdist með keppnisviðburðum hvort heldur var á staðnum eða á útsendingar frá viðburðum. Nemendur úr skólum í nágrenninu hafa komið til að upplifa leikana og ýmsa viðburði sem þeim tengjast.  Miðbær Lillehammer var eitt stórt hátíðarsvæði þar sem margt var um manninn og stemningin góð. Auk hefðbundinnar keppnisdagskrár er mikil áhersla lögð á fræðslu og miðlun til þátttakenda. Ýmiss konar fræðslu og upplifunarviðburðir voru í boði meðan á leikunum stóð. Meðal annars var mögulegt að prófa allar keppnisgreinarnar leikanna með leiðsögn.

Illugi Gunnarsson ráðherra íþróttamála sótti fund Norrænna ráðherra íþróttamála sem haldinn var í Lillehammer meðan á leikunum stóð. Illugi náði að heilsa uppá íslenska hópinn í Ólympíuþorpinu og fylgjast með keppni.

Íslenski hópurinn heldur heim á leið í fyrramálið. Næstu Vetrarólympíuleikar ungmenna fara fram árið 2020 í Lausanne í Sviss.

Á myndinni sem fylgir má sjá frá vinstri Örvar Ólafsson aðalfararstjóra, Steven Gromatka þjálfara í göngu, Bjarka Guðjónsson keppanda í alpagreinum, Hólmfríði Dóru Friðgeirsdóttur keppanda í alpagreinum, Írisi Berg Bryde ungan sendiherra á leikunum, Dag Benediktsson keppanda í skíðagöngu, Grím Rúnarsson þjálfara í alpagreinum og Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ.