Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
5

Vettvangsferð til Ríó

07.03.2016

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs, Örvar Ólafsson verkefnastjóri Afreks- og Ólympíussviðs og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri eru nýkomin heim úr vettvangsferð til Ríó de Janeiró í Brasilíu. Þar funduðu þau, ásamt fulltrúum annarra landa, með skipuleggjendum Ólympíuleikanna í Ríó og skoðuðu íþróttamannvirkin sem keppt verður í á leikunum. Verið er að leggja síðustu hönd á mannvirkin og var ekki annað að sjá en einungis lokafrágangur væri eftir. Í mörgum þeirra eru framundan prufumót til að láta reyna á allan búnað og framkvæmd.  (Upplýsingar um þá viðburði má finna hér á heimasíðu leikanna.)

Ólympíuþorpið er nánast alveg tilbúið og lítur mjög vel út og þar ætti að fara vel um íslenska hópinn. Allar byggingar eru tilbúnar og einungis á eftir að ganga endanlega frá útisvæðum, leggja gólfefni og setja inn húsbúnað. Það sem helst hefur vakið áhyggjur undanfarna mánuði varðandi undirbúning leikanna er uppbygging lestakerfisins á milli keppnisstaða en framkvæmdaraðilar fullvissuðu íslensku sendinefndina um að allar leiðir yrðu tilbúnar fyrir leika. Sjá mátti uppbyggingu þessara leiða sem bæta á við fyrirliggjandi lestarkerfi borgarinnar þegar ekið var um borgina og vonandi verður endaspretturinn árangursríkur hjá viðkomandi verktökum. Vegalengdir eru talsverðar á milli keppnisstaða á leikunum og því er afar mikilvægt að lestarkerfi borgarinnar nýtist vel við að flytja áhorfendur á milli staða á sem skemmstum tíma.

Efnahagsþrengingar eru miklar í Ríó þessa stundina og hefur ýmis þjónusta sem átti að vera til staðar í kringum leikana verið felld niður en engu að síður þá verður búið vel að íþróttafólkinu og öllu því sem snýr að keppninni sjálfri. Þetta verða spennandi leikar í spennandi og að vissu leyti framandi umhverfi fyrir okkur Íslendinga.

Myndir með frétt