Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
4

Halldóra Gyða fyrsti formaður ÞRÍ

27.04.2016

Nýtt sérsamband bættist í hóp sérsambanda ÍSÍ í dag.  Stofnþing Þríþrautarsambands Íslands (ÞRÍ) fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal kl. 18 í dag. Vel var mætt á þingið en félög í sex íþróttahéruðum eiga aðild að nýja sérsambandinu.  Það eru Umf. Víkingur og Umf. Snæfell í HSH, Íþróttafélagið Vestri í HSV, Sundfélag Hafnarfjarðar og Íþróttafélagið Fjörður í ÍBH, Sundfélagið Ægir í ÍBR, Umf. Njarðvík í ÍRB og Umf. Breiðablik í UMSK. Með stofnun Þríþrautarsambands Íslands eru sérsambönd ÍSÍ orðin 32 talsins.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ setti þingið og bauð þingfulltrúa og gesti velkomna. Hann lýsti yfir ánægju sinni með þessi tímamót hjá þríþrautaríþróttinni og kvað íþróttina eiga alla möguleika á að dafna enn betur á landsvísu. Þríþrautin á sér nokkuð langa sögu innan ÍSÍ en fyrsta mótið í þríþraut var haldið á Akureyri í júní árið 1988. Segja má að nýju lífi hafi verið blásið í íþróttina árið 2010 þegar Þríþrautarnefndin var endurvakin innan ÍSÍ eftir að hafa legið í dvala um nokkurt skeið. Síðan þá hefur íþróttin verið í stöðugum vexti.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé var kjörin fyrsti formaður sambandsins en með henni í stjórn eru Hákon Hrafn Sigurðsson, Jón Oddur Guðmundsson, Sarah Cushing og Stefanie Anke Gregersen.  Varastjórn skipa Rúnar Örn Ágústsson, Stephen Patrick Bustos og Jón Sigþór Jónsson. Skoðunarmenn reikninga eru Ása Magnúsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir.

Í lok þings kallaði forseti ÍSÍ nýkjörinn formann Þríþrautarsambandsins, Halldóru Gyðu, upp í pontu og færði henni blómvönd að gjöf frá ÍSÍ.  Halldóra Gyða flutti stutt ávarp þar sem hún meðal annars fór stuttlega yfir sögu íþróttarinnar á Íslandi og þakkaði öllum þríþrautarfélögum og samstarfsaðilum fyrir frábært samstarf í gegnum tíðina.

Að þingi loknu hóf nýja sérsambandið starfsemi sína með því að bjóða upp á fyrirlestur Geirs Ómarssonar um þátttöku hans í keppni í járnkarli á Hawaii á síðasta ári.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ óskar nýju sérsambandi til hamingju og velfarnaðar um ókomna tíð.

Myndir með frétt