Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Kristján endurkjörinn formaður BSÍ

11.05.2016

Ársþing Badmintonsambands Íslands var haldið 6. maí í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Kristján Daníelsson formaður sambandins setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna, en alls sóttu þingið fulltrúar frá átta aðildarfélögum. Formaður flutti skýrslu stjórnar og kynnti einnig reikninga sambandsins, en sambandið var rekið með hagnaði á síðasta starfsári. Fyrir þinginu lágu lagabreytingatillögur sem samþykktar voru einróma. Afreksstefna sambandsins var kynnt og til umræðu á þinginu og samþykkt að loknum umræðum. Einnig voru hugmyndir að breytingum á mótahaldi næsta starfsárs rædd og vísað til næstu stjórnar til úrvinnslu á ákvarðana.

Á þinginu voru veittar viðurkenningar og verðlaun til leikmanna sem voru sigurvegarar á Dominos mótaröðinni í badminton. Í ávarpi formanns var minnt á að Badmintonsambandið mun halda upp á 50 ára starfsafmæli á næsta ári og komu fram ábendingar og hugmyndir frá þingfulltrúum um hvað hægt væri að gera í tilefni afmælisins. Kristján Daníelsson var endurkjörinn formaður. Aðrir í stjórn sambandsins eru Birgitta Rán Ásgeirsdóttir, Guðrún Björk Gunnarsdóttir, Helgi Jóhannesson, Ívar Oddsson og Vignir Sigurðsson.

Sigríður Jónsdóttir, ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ, var fulltrúi ÍSÍ á þinginu.