Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
4

EOC Seminar 2016

25.05.2016

Á dögunum fór fram 37. málþing Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC Seminar) í borginni Tarragona á Spáni.  Fulltrúar ÍSÍ á málþinginu voru þau Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.

Á þessu árlega málþingi er kynnt staða undirbúnings vegna þeirra ólympísku viðburða sem eru framundan, þær reglur sem gilda hjá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) og Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunni (WADA), styrkjakerfi Ólympíusamhjálparinnar (ÓS) og fleira er tengist daglegu starfi Ólympíunefnda Evrópu.  Vinnustofur voru að þessu sinni tvær sem tengdust annars vegar Ólympíuleikunum í Ríó og hins vegar reglum Evrópubandalagsins og þeim verkefnum sem þar eru á dagskrá.   

Við hátíðarkvöldverð fór fram afhending á fyrstu Piotr Nurowski verðlaununum vegna vetraríþrótta, en tilnefnd voru fimm ungmenni sem þóttu skara fram úr á síðasta keppnistímabili.  Verðlaunin hlaut Krystyna Dmytrenko frá Úkraínu, en hún er 16 ára keppandi í skíðaskotfimi.

Á undan málþinginu áttu Líney og Andri undirbúningsfund með starfsmönnum Ólympíuleikanna í Ríó 2016, þar sem farið var yfir stöðu undirbúnings, skráningar og fleira sem tengist lokaundirbúningi vegna leikanna.  Fór sá fundur fram í höfuðstöðvum spænsku Ólympíunefndarinnar í Madrid.

Næsta EOC seminar fer fram í Skopje í Makedóníu vorið 2017.

Myndir með frétt