Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

02.10.2020 - 03.10.2020

Ársþing FRÍ 2020

Ársþing Frjálsíþróttasambands Íslands verður...
16.10.2020 - 16.10.2020

Ársþing LH 2020

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
27

Á leið til Ríó - Lárus L. Blöndal

05.08.2016

Undanfarin misseri hafa verið viðburðarík í íslensku íþróttalífi. Góður árangur hefur náðst í mörgum íþróttagreinum og hefur þessi árangur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Ísland er smáþjóð með svipaðan fjölda íbúa og hverfi í stórborg. Það telst því til tíðinda þegar slík þjóð gerir sig ítrekað gildandi á stórmótum þar sem þeir bestu kljást. En þessi árangur kemur ekki af sjálfu sér. Að baki liggur mikil vinna hjá íþróttafólkinu sjálfu og einnig þeim sem að þeim standa, foreldrum, íþróttafélögum og sérsamböndum svo einhverjir séu nefndir til. Við skulum ekki gleyma að íþróttahreyfingin er stærsta sjálfboðaliðahreyfing á Íslandi.
Á EM karla í knattspyrnu sem er nýlokið, vakti landsliðið okkar verðskuldaða athygli fyrir frábæran árangur, árangur sem verður sjálfsagt rannsóknarefni inn í framtíðina. En það var ekki bara liðið okkar sem vakti athygli. Íslenskir áhorfendur vöktu einnig mikla athygli og ekki eingöngu fyrir öfluga hvatningu miðað við fólksfjölda heldur miklu frekar fyrir jákvæða og prúðmannlega framgöngu og afdráttarlausan stuðning við sitt lið, sama á hverju gekk.
Samband Íslendinga við íþróttafólkið sitt er mjög sérstakt. Íslendingar fylgjast með sínu fólki þegar mikið liggur við. Hvort sem það eru hóp- eða einstaklingsíþróttir þá verður öll þjóðin heltekin þegar Íslandi gengur vel í alþjóðlegri keppni. Fögnuður okkar verður svo einlægur vegna þess að við vitum sem er að fyrir fámenna þjóð er ekkert sjálfgefið. Það er þessi einlægni og þessi afdráttarlausi stuðningur landsmanna við íþróttafólkið okkar sem gerir íþróttirnar að einu sterkasta sameiningarafli þjóðarinnar.
Nú sendum við vaska sveit á Ólympíuleikana í Ríó sem er stærsta íþrótta- og menningarhátíð í heiminum. Sveitin okkar er reyndar fámennari nú en á undanförnum Ólympíuleikum þar sem handboltastrákarnir okkar verða ekki með í för að þessu sinni. En hún er öflug og hefur lagt mikið á sig til þess að öðlast þátttökurétt í leikunum í Ríó. Íslendingar eiga eftir að flykkjast að sjónvarpstækjunum þegar okkar fólk keppir og senda sterka strauma og stuðning. Ég efast ekki um að við munum verða stolt af okkar keppendum enda setur hver og einn þeirra markið hátt.
Góða skemmtun og áfram Ísland.