Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Ríó - 2016 Samantekt

18.08.2016

Íslenskir þátttakendur á Ólympíuleikunum í Ríó hafa nú allir lokið keppni. Hér má sjá samantekt um árangur þeirra á leikunum.

Ant­on Sveinn McKee sundmaður keppti fyrst­ur Íslend­inga þann 6. ágúst í 100m bring­u­sundi. Hann synti á 1:01,84 mín­út­um, hafnaði í 35. sæti og komst því ekki áfram í undanúr­slit­. Anton hefði þurft að setja Íslandsmet og synda á 1:00,25 sek­únd­um til að ná inn í undanúr­slit­in, en Íslandsmet hans er 1:00,53. Ant­on keppti síðan í 200 metra bringusundi þann 9. ágúst. Hann synti á tímanum 2:11,39 mín­út­um, en það er rúmri sek­úndu frá Íslands­meti hans, 2:10,21 mín­útur. Árangur hans tryggði honum 18. sætið, en 16 sundmenn komust áfram í undanúrslitin. Ant­on var mjög ná­lægt því að kom­ast áfram, eða 13/100 úr sek­úndu. Ant­on lauk þar með keppni á leik­un­um.

Eygló Ósk Gústafsdóttir synti þann 7. ágúst í undanriðlum 100 metra baksunds á tímanum 1:00,89. Tíminn var sá sextándi besti og varð Eygló því fyrsta íslenska konan til að tryggja sig inn í milliriðla á Ólympíuleikum í sundi. Eygló synti síðan undanúrslitasundið í 100 m baksundi á tímanum 1:00,65 sem var fjórtándi besti tíminn. Eygló var nálægt sínum besta árangri sem er 1:00,25. Þar með lauk Eygló keppni í 100 m baksundi. Eygló synti sig síðan inn í úrslit 200 metra baksunds þann 12. ágúst, en hún náði sjöunda besta tímanum 2:08,84 í undanúrslitunum. Er það bæting á hennar besta árangri og um leið Íslands- og Norðurlandamet í greininni. Í úrslitasundinu hafnaði Eygló í 8. sæti eft­ir að hafa synt á 2:09,44 mín­út­um. Eygló er þriðji Íslend­ing­ur­inn í sög­unni sem synd­ir til úr­slita á Ólymp­íu­leik­um. Þar með lauk Eygló keppni á leikunum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir synti í undanriðlum í 100 metra bringusundi þann 7. ágúst á tímanum 1:06,81 sem var níundi besti tíminn í undanriðlunum. Í undanúrslitum 100 metra bringusundsins þann 8. ágúst náði Hrafnhildur sjöunda besta tímanum þegar hún synti á 1:06,71 og tryggði sér með því sæti í úrslitasundinu. Hrafn­hild­ur náði síðan 6. sæti í úrslitasundinu, á tímanum 1:07,18 mín­út­um sem er 73/100 úr sek­úndu frá Íslands­meti henn­ar, sem er 1:06,45. Bandaríska sundkonan Lilly King varð Ólymp­íu­meist­ari, en hún synti á 1:04,93 mín­útu og setti þar með Ólymp­íu­met. Árangur Hrafnhildar er besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum, en næst­besti ár­ang­ur sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í sundi á Ólymp­íu­leik­um þar sem Örn Arn­ar­son náði 4. sæti í 200 metra baksundi í Syd­ney árið 2000. Hrafnhildur synti síðan í undanriðlum í 200 metra bringusundi þann 10. ágúst á tímanum 2:24,43 mín­út­um og tryggði sig inn í undanúrslitin. Í undanúrslitum 200 metra bringusundsins synti Hrafn­hild­ur á 2:24,41 mín­útu og varð í 5. sæti í sín­um riðli. Hún komst ekki áfram í úrslit, en varð í 11. sæti alls. Hrafnhildur er fyrsta íslenska konan sem kemst í undanúrslit á Ólympíuleikum í sundi í tvígang og sú fyrsta til að komast í úrslitasund á Ólympíuleikum þegar hún tryggði sér sjötta sætið í 100 metra bringusundi.

Irina Sazonova keppti í áhaldafimleikum kvenna þann 7. ágúst. Með þátttöku sinni braut Irina blað í sögu fimleika á Íslandi þegar hún varð fyrsta íslenska konan til að taka þátt á Ólympíuleikum. Í keppninni náði Irina samtals 53,200 stigum og varð með árangri sínum í 41. sæti.  24 efstu keppa til úrslita í fjölþrautinni.

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason keppti í kringlukasti þann 12. ágúst og kastaði fyrst 53.51 m, næst 60.45 m og síðasta kast var 59.37 m. Hann endaði í 21. sæti keppninnar af 35 þátttakendum. Besta árangri sínum til þessa náði Guðni Valur í Hafnarfirði þann 10. september 2015 þegar hann kastaði 63.50 metra. Síðastur inn í úrslitin, sá sem varð í 12. sæti í undan­keppn­inni, kastaði kringl­unni 62.68 metra.

Þormóður Árni Jóns­son kepp­ti í  +100 kg flokki í júdó þann 12. ágúst. Hann mætti Maciej Sarnacki frá Póllandi í fyrstu glímu, í 32 manna úr­slit­um, og tapaði. Sarnacki er pólsk­ur meist­ari og er í 23. sæti á heimslist­an­um, en Þormóður í 65. sæti. Glíman var jöfn og mjög spenn­andi, en Þormóður tapaði að lok­um á sókn­ar­vill­um. Báðir höfðu þeir fengið þrjár vill­ur fyr­ir að sækja ekki nógu mikið og Þormóður tapaði síðan þegar hann fékk fjórðu vill­una. Ólymp­íu­leik­arnir í Ríó eru þriðju leikar Þormóðar Árna í röð. Hann komst í 16 manna úr­slit á sín­um fyrstu leik­um, árið 2008, en féll út gegn Bras­il­íu­mann­in­um sterka Rafa­el Silva í fyrstu glímu í London 2012.

Ásdís Hjálmsdóttir keppti í spjótkasti þann 16. ágúst og komst ekki áfram í úrslit. Fyrsta og þriðja kastið hennar voru dæmt ógild, en annað kastið hennar var 54.92 metr­ar. Henn­ar lengsta kast á ár­inu er 61.37 metr­ar og Íslands­metið 62.77 metr­ar. Ásdís hafnaði í 30. sæti af 31 kepp­anda.

Aníta Hinriks­dótt­ir virt­ist njóta sín vel á sín­um fyrstu Ólymp­íu­leik­um þegar hún hljóp í und­an­rás­um 800 metra hlaups þann 17. ágúst. Hún bætti þriggja ára gam­alt Íslands­met sitt um 35 sek­úndu­brot með því að hlaupa á 2:00,14 mín­út­um. Það var 20. besti tím­inn í und­an­rás­un­um en dugði þó ekki til að koma Anítu í 24 manna undanúr­slit­in. Ástæðan er sú að aðeins tveir fyrstu kepp­end­ur í hverj­um riðli af átta komust áfram, auk átta kepp­enda til viðbót­ar sem náðu best­um tíma þar fyr­ir utan. Kepp­end­ur í riðli Anítu hlupu hraðast allra og varð hún í 6. sæti í hon­um. Ef horft er á tíma þeirra sem ekki lentu í 1. eða 2. sæti í sín­um riðli átti Aníta 10. besta tím­ann af þeim, og var aðeins tveim­ur sæt­um frá því að kom­ast í undanúr­slit, eða 14/100 úr sek­úndu. Fimm fyrstu í henn­ar riðli komust áfram.




 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Myndir með frétt