Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

24

Ríó 2016 - Paralympics hefst á morgun

06.09.2016

Paralympics (Ólympíumót fatlaðra) hefst á morgun í Ríó í Brasilíu og stendur til 18. september. Fimm keppendur úr röðum fatlaðra keppa á leikunum. Hópinn skipa Jón Margeir Sverrisson sundmaður, Sonja Sigurðardóttir sundkona, Thelma Björg Björnsdóttir sundkona, Helgi Sveinsson spjótkastari og Þorsteinn Halldórsson bogfimimaður.

Íslenski hópurinn hefur nú komið sér haganlega fyrir í Paralympic-þorpinu. Æfingar hófust um leið og komið var utan og hópurinn nú búinn að laga sig að aðstæðum. Þorsteinn Halldórsson æfði á keppnissvæðinu í bogfimi þann 2. september og sundkonurnar Thelma Björg og Sonja létu sitt ekki eftir liggja í keppnislauginni þann dag.

Íslenski hópurinn var boðinn velkominn í Paralympic-þorpið í Ríó við hátíðlega athöfn í gær. Við upphaf athafnarinnar var þjóðsöngurinn leikinn um leið og íslenski fáninn var dreginn að hún. Öll Norðurlöndin voru boðin velkomin á stórri sameiginlegri athöfn. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF voru viðstaddir athöfnina.

Annað kvöld fer setningarhátíð Paralympics fram á Maracana-leikvanginum. Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson verður fánaberi Íslands á setningarhátíðinni. Jón er að keppa á sínum öðrum Paralympics á ferlinum en hann var einnig á meðal keppenda í London 2012. Jón keppir í flokki þroskahamlaðra (S14) en keppnisgreinar hans á Paralympics eru 200m skriðsund, 100m bringusund og 200m fjórsund.

Þann 9. september verður spjótkastarinn Helgi Sveinsson fyrstur Íslendinga til þess að láta til sín taka á leikunum. Þetta verður í annað skiptið sem Helgi keppir á Paralympics, en hann keppti í London 2012.

Dagskrá íslensku keppendanna má finna á vefsíðu RÚV

Myndir með frétt