Blaðamannafundur Forvarnardagsins
Í dag, þann 10. október var haldinn blaðamannafundur í Langholtsskóla í Reykjavík í tilefni af Forvarnardeginum sem haldinn verður næstkomandi miðvikudag, þann 12. október. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur blaðamannafundinn og ávarpaði gesti. Á fundinum fór fram kynning á Forvarnardeginum 2016, en meðal þátttakenda auk forsetans, voru nemendur og stjórnendur skólans, fulltrúar ÍSÍ þau Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, fulltúar UMFÍ og Skátanna.
Í tilefni af Forvarnardeginum á miðvikudaginn mun forseti Íslands heimsækja þrjá skóla, Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, Kvennaskólann í Reykjavík og Garðaskóla í Garðabæ. Forvarnardagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra er að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna. Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.
Í ár er sjónum beint að nýjum rannsóknum en niðurstöður þeirra benda til að ungmenni séu í einhverju mæli farin að nota rafrettur. Ungmenni sem hefja notkun rafretta eru líklegri en þau sem ekki nota rafrettur til að byrja að nota hefðbundnar tóbaks sígarettur sem og að neyta annarra vímuefna sem eykur líkur á annars konar frávikshegðun. Hins vegar eru lög og reglur um sölu og dreifingu rafretta af skornum skammti hér á landi og hefur Embætti landlæknis t.a.m. lýst yfir áhyggjum af þeirri óvissu sem það skapar fyrir fræðslu og forvarnastarf í þessum efnum. Ef tekið er mið af rannsóknum má hins vegar segja að engar haldbærar ástæður séu fyrir því að sýna neyslu á rafrettum meðal barna og unglinga einhverja linkind. Foreldrar og forvarnaraðilar ættu að afla sér þekkingar um bæði líkamlega og félagslega skaðsemi rafretta.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.
Vefsíða forvarnardagsins er www.forvarnardagur.is
Nokkrar myndir frá blaðamannafundinum fylgja fréttinni, en fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.