Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
20

Geir og Guðmundur í Heiðurshöll ÍSÍ

29.12.2016

Í dag, þann 29. desember, á hófi Íþróttamanns ársins 2016, var útnefnt í Heiðurshöll ÍSÍ í fjórtánda og fimmtánda sinn.

Guðmundur Gíslason sundmaður og Geir Hallsteinsson handknattleiksmaður voru útnefndir í Heiðurshöllina. Guðmundur og Geir voru báðir framúrskarandi íþróttamenn.

Guðmundur Gíslason setti á ferli sínum 152 Íslandsmet í sundi. Hann var kjörinn Íþróttamaður ársins í tvígang, fyrst árið 1962 og svo aftur sjö árum síðar, 1969.
Guðmundur sló Norðurlandamet í 400 metra fjórsundi árið 1962 og árið 1969 fór hann fyrir landsliði Íslands sem hafði betur gegn Dönum í landskeppni í Danmörku. Guðmundur tók þátt í fernum Ólympíuleikum á ferlinum og varð fyrsti Íslendingurinn til að afreka það þegar hann keppti á leikunum í Vestur-Þýskalandi 1972. Áður hafði hann keppt á Ólympíuleikum í Róm 1960, Tókýó 1964 og Mexíkó-borg 1968. Hann hætti keppni 1974.
Guðmundur hefur alla tíð barist fyrir framgangi sundíþróttarinnar hér á landi og eftir að ferlinum lauk var hann meðal annars ritari Sundráðs Reykjavíkur og gjaldkeri Sundsambands Íslands um árabil auk þess sem hann sat í byggingarnefnd Laugardalslaugarinnar. Guðmundur Gíslason er boðinn hjartanlega velkominn í Frægðarhöll ÍSÍ.

Guðmundur var þakklátur fyrir viðurkenninguna og hélt stutta ræðu að því tilefni.

Geir Hallsteinsson er af mörgum talinn einn fremsti handknattleiksmaður sem Ísland hefur átt. Geir fæddist í Hafnarfirði 1946 og var valinn Íþróttamaður ársins árið 1968. Það ár sýndi hann mögnuð tilþrif með íslenska landsliðinu sem lagði Danmörku að velli í fyrsta skipti auk þess sem hann var í lykilhlutverki í liði FH sem vann frækna sigra á sterkustu liðum Norðurlanda. Árið 1973 gekk hann til liðs við Göppingen í Vestur-Þýskalandi þar sem hann vakti strax mikla athygli og skipaði sér á bekk með fremstu skyttum vesturþýsku deildarinnar.
Geir lék 118 landsleiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði í þeim ríflega 500 mörk.

Brynjar E. Geirsson, sonur Geirs, tók við viðurkenningunni fyrir hönd föður síns og las upp kveðju frá honum.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sáu um afhendingu viðurkenninganna. 

Heiðurshöll ÍSÍ var stofnuð þann 28. janúar 2012 í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ og var Vilhjálmur Einarsson fyrstur tekinn þar inn.

ÍSÍ óskar Guðmundi og Geir innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Myndir með frétt