Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23.08.2020 - 23.08.2020

Ársþing KLÍ 2020

Ársþing Keilusambands Íslands verður haldið í...
26.08.2020 - 26.08.2020

Ársþing BSÍ

Ársþing Badmintonsambands Íslands verður...
15

Nýir Heiðursfélagar ÍSÍ

05.05.2017

73. Íþróttaþing ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Reykjavík í dag kl. 15:00.

Íþróttaþing ÍSÍ kaus þrjá einstaklinga Heiðursfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir frábær störf í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar. Það voru Helga H. Magnúsdóttir, Jón G. Zoëga og Júlíus Hafstein. Þau hafa m.a. öll hlotið Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ.

Helga H. Magnúsdóttir er fædd 21. desember 1948. Hún hóf ung að æfa handknattleik, fyrst með Ármanni, svo FH og Fram. Hún varð margfaldur Íslandsmeistari, bæði með FH og Fram ásamt því að vinna til Bikarmeistara- og Reykjavíkurmeistaratitla. Helga sat í stjórn handknattleiksdeildar FH í 6 ár, í stjórn HSÍ í 8 ár og í varastjórn og framkvæmdastjórn ÍSÍ í 20 ár. Í öllum þessum stjórnum sinnti Helga margvíslegum forystustörfum. Helga var kjörin í mótanefnd Handknattleikssambands Evrópu og sat þar í 12 ár og var svo fyrst allra kvenna kjörin í framkvæmdastjórn sambandsins árið 2012 þar sem hún átti sæti í fjögur ár. Helga er mikil fyrirmynd og hefur ekki síst verið konum í íþróttahreyfingunni fyrirmynd með því að taka óhikað að sér leiðtogastörf og brjóta niður gamaldags kynjamúra í alþjóðasamstarfi.

Jón G. Zoëga er fæddur 9. júní 1943. Hann lék knattspyrnu í yngri flokkum Vals og sat í stjórn handknattleiksdeildar 1974–1976. Á árunum 1975–1980 sat Jón í stjórn knattspyrnudeildar Vals og var formaður í fjögur ár. Hann varð formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Vals 1988 og gegndi því hlutverki til 1993.
Jón var formaður dómstóls KRR 1974 og sat í áfrýjunardómstól KSÍ í 20 ár, frá 1985 – 2005. Jón hefur verið forseti áfrýjunardómstóls ÍSÍ frá árinu 1990 og allt til dagsins í dag. Það hefur verið ómetanlegt fyrir íþróttahreyfinguna að eiga hann að öll þessi ár.

Júlíus Hafstein er fæddur 6. mars 1947. Júlíus keppti með Val i yngri flokkum í knattspyrnu og með ÍR í handknattleik og frjálsíþróttum. Hann var formaður HKRR 1973 til 1974, sat í stjórn HSÍ frá 1974 til 1983, þar af formaður frá 1978.
Hann sat í stjórn ÍBR árin 1974 til 1978 og aftur 1984 til 1988, þá sem formaður. Júlíus sat í Ólympíunefnd Íslands frá 1993 til 1997, þar af formaður frá 1994. Hann átti sæti í nefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar um íþróttir og umhverfismál 1995 til 2002 og er eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur starfað á vegum IOC. Júlíus var formaður Júdósambands Íslands frá 1997 til 2000 og formaður Blaksambands Íslands frá 2000 til 2003. Júlíus var einnig virkur í starfi Reykjavíkurborgar, m.a. sem meðlimur í borgarstjórn og sem formaður ÍTR, og kom þar bæði að uppbyggingu og rekstrarumhverfi íþróttafélaga í borginni. Í starfi hans þar kom hann mörgum framfaramálum til leiðar, íþróttahreyfingunni til góða, svo sem uppbyggingu skauta- og gervigrasmannvirkja í Laugardalnum. Júlíus hefur verið í forystu fleiri íþróttasamtaka en nokkur annar Íslendingur.

Helga, Jón og Júlíus eru vel að þessum heiðri komin og ÍSÍ óskar þeim til hamingju með að vera komin í hóp Heiðursfélaga ÍSÍ.

Fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.