Fyrrverandi forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ
73. Íþróttaþing ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Reykjavík í dag kl. 15:00.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma að sæma fyrrverandi forseta lýðveldisins og verndara íþróttahreyfingarinnar, hr. Ólaf Ragnar Grímsson, með Heiðurskrossi ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu sambandsins.
Í embætti sínu sem forseti Íslands var Ólafur Ragnar óþreytandi að sækja viðburði íþróttahreyfingarinnar, bæði hér heima og erlendis, styðja við starf hreyfingarinnar og hvetja okkur til dáða. Hann hefur verið viðstaddur mörg helstu íþróttaafrek okkar Íslendinga og mörgum glæstustu sigrunum hefur verið fagnað á Bessastöðum þar sem hreyfingin hefur notið gestrisni Ólafs Ragnars og Dorritar.
Ólafur Ragnar hafði frumkvæði að Forvarnardeginum í samstarfi við ÍSÍ og fleiri félagasamtök, verkefni sem hefur m.a. vakið athygli á mikilvægi íþróttaiðkunar hjá börnum og ungmennum. Það er ÍSÍ mikil ánægja að sæma hann Heiðurskrossi ÍSÍ.
Fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.