Heiðursveitingar á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ
Árni Þór Árnason er fæddur 31. ágúst 1951. Hann hefur komið víða við innan íþróttahreyfingarinnar. Hann var formaður badmintondeildar Víkings í þrjú ár, formaður badmintonráðs Reykjavíkur í tvö ár, formaður fimleikadeildar KR í þrjú ár, formaður Fimleikasambands Íslands í sex ár, sat í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu í sex ár og í landsliðsnefnd kvenna HSÍ sem stjórnarmaður og síðar formaður. Árni Þór sat í varastjórn ÍSÍ 1988-92 og í framkvæmdastjórn ÍSÍ 1992-1996. Á meðan Árni Þór sat í stjórn ÍSÍ sinnti hann einnig ýmsum verkefnum á vegum ÍSÍ, svo sem stjórnarformennsku í Íslenskum getraunum, svo fátt eitt sé nefnt.
Guðmundur Þorbjörn Harðarson er fæddur 10. febrúar 1946. Hann hóf sundæfingar 6 ára gamall og á ferli sínum setti hann fjölda drengja-, unglinga- og Íslandsmeta í sundi. Hann hafði snemma áhuga á þjálfun og árið 1973 flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann sótti framhaldsnám við University of Alabama í Tuscaloosa. Stundaði hann þar jafnframt sundæfingar og sundþjálfun. Guðmundur varð síðar þjálfari með sundliði skólans, einu sterkasta skólaliði í Bandaríkjunum á þessum tíma. Hann starfaði einnig lengi sem aðalþjálfari sundliðs Randers í Danmörku. Guðmundur var landsliðsþjálfari SSÍ upp úr 1970 - 1980, m.a., á Ólympíuleikunum í München 1972 og svo aftur fyrir og á Ólympíuleikunum í Seúl 1988.
Guðmundur hefur verið helsti tæknimaður Íslands á sviði sundsins og íþróttanna frá því hann kom frá námi í BNA. Hefur hann átt sæti í tækninefnd LEN, Sundsambands Evrópu allt þar til á síðasta ári og setið fyrir hönd ÍSÍ í tækninefnd Smáþjóðaleikanna um langt árabil. Hann hefur stuðlað að helstu framförum á sviði reksturs sundlauga enda fyrrum forstöðumaður tveggja stórra sundstaða og einnig látið málefni sundsins innan ÍSÍ til sín taka; setið í stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ frá upphafi. Guðmundur hefur afkastað miklu verki í þágu íþróttanna á Íslandi, svo ekki sé minnst á það verk sem hann hefur unnið fyrir sundíþróttina.
Steinar J. Lúðvíksson er fæddur 30. september 1941. Steinar hefur verið virkur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni um langt skeið. Hann sat í stjórn Stjörnunnar 1983-85, í stjórn knattspyrnudeildar sama félags 1985-87, var varaformaður HSÍ 1986-89 og sat í stjórn Afreksmannasjóðs ÍSÍ frá 1978-1997. Steinar ritstýrði Íþróttablaðinu árin 1978-86 og hefur ritað tugi bóka, þar á meðal bók um handknattleik á Íslandi og golfíþróttina á Íslandi, svo fátt eitt sé nefnt. Steinar ritstýrði 100 ára afmælisriti ÍSÍ sem bar heitið Íþróttabókin, ÍSÍ – Saga og samfélag í 100 ár og leiddi þar mikið starf ritnefndar bókarinnar.
Steinar hefur yfirgripsmikla þekkingu á sögu íþrótta á Íslandi og hefur skilað ómetanlegu starfi við að tryggja sögulegar heimildir um starf hreyfingarinnar.
ÍSÍ óskar krosshöfunum þremur innilega til hamingju með heiðursviðurkenninguna og þakkar þeim fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttanna.