Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Hrafnkell endurkjörinn formaður ÍBH

24.05.2017

Ársþing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar var haldið 20. maí í  Álfafelli í íþróttahúsinu við Strandgötu. Þingið sóttu 64 fulltrúar frá átján af þeim nítján aðildarfélögum sem skráð eru innan vébanda bandalagsins. Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri sambandsins flutti skýrslu stjórnar og Ingvar Kristinsson, varaformaður ÍBH flutti reikninga þess en bandalagið var rekið með hagnaði síðasta starfsár. Fjölmargar tillögur lágu fyrir þinginu til umfjöllunar og afgreiðslu og samþykktar voru breytingar á lögum bandalagsins. Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH til næstu tveggja ára. Aðrir í stjórn bandalagsins eru: Ingvar Kristinsson, Magnús Gunnarsson, Viðar Halldórsson, Þórunn Ansnes, Sveinn Sigurbergsson, Hörður Þorsteinsson, Ragnar Hilmarsson, Jóhann Óskar Borgþórsson. Varamenn til tveggja ára eru Karl Georg Klein og Jelena Kospenda. Gunnar Svavarsson frá Frjálsíþróttasambandi Íslands flutti kveðju frá sambandinu og veitti einstaklingum úr íþróttahreyfingunni í Hafnarfirði heiðursviðurkenningar frá sambandinu. Rósa Guðbjartsdóttir forseti bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar flutti kveðju frá Hafnarfjarðarbæ og kom inn á helstu verkefni íþróttahreyfingarinnar og bæjarins. Að þingi loknu bauð bæjarstjórn Hafnarfjaðarbæjar til móttöku fyrir þingfulltrúa og gesti í Hafnarborg.

Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Hún ávarpaði þingið, flutti kveðjur forseta og framkvæmdastjórnar og þakkaði m.a. fyrir móttökur og kynningu á starfssemi IBH og íþróttafélaganna í Hafnarfirði þegar fulltrúar úr framkvæmdastjórn ÍSÍ heimsóttu bandalagssvæðið í fyrrahaust.