Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
5

Aldrei lognmolla í íþróttahreyfingunni

29.06.2017Það er aldrei lognmolla í íþróttahreyfingunni.

Sumaríþróttagreinarnar eru nú í fullum gangi og framundan eru spennandi mót og viðburðir. Kvennalandsliðið í blaki stóð sig frábærlega á Evrópumóti smáþjóða en þær stóðu uppi sem sigurvegarar og veitir sá sigur þeim þátttökurétt í Evrópukeppni landsliða. Er það í fyrsta skipti sem íslenskt landslið í blaki öðlast keppnisrétt í riðlakeppni EM.

Stelpurnar okkar í knattspyrnulandsliðinu halda brátt til Hollands til þátttöku í lokakeppni EM í knattspyrnu og margir Íslendingar hafa í hyggju að fylgja liðinu og styðja við bakið á stelpunum í þessari spennandi keppni. Þá vann karlalandsliðið í knattspyrnu mikilvægan sigur á Króötum í undankeppni HM. Ólafía Kristinsdóttir ávann sér keppnisrétt á PGA meistaramótinu og varð þar með fyrsta allra Íslendinga til að spila á risamóti í golfi.

Það er ævintýri líkast að fylgjast með árangri Íslendinga í íþróttum og við getum verið stolt af okkar fólki.

Hjá ÍSÍ hefur einnig verið annasamt. Smáþjóðaleikar eru nýlega afstaðnir í San Marínó en þangað sendi ÍSÍ nærri 200 manna hóp.
Íslenskir keppendur stóðu sig vel á leikunum og hafnaði Ísland í 3. sæti í heildina með 60 verðlaun, þar af 27 gullverðlaun. Þátttaka í Smáþjóðaleikum er einn af hápunktunum í starfi ÍSÍ og fjölmennasti hópur þátttakenda sem ÍSÍ sendir til alþjóða íþróttakeppni. Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður haldin í júlí næstkomandi í Ungverjalandi og þangað fer um 50 manna hópur á vegum ÍSÍ.

73. Íþróttaþing ÍSÍ fór fram í maí en þar var m.a. tekin fyrir tillaga um uppfærða Afreksstefnu ÍSÍ sem og ályktun er sneri að vinnu ÍSÍ að mótun nýrrar reglugerðar. Í kjölfarið samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ nýja reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ.

Mikil vinna var lögð í að endurskoða Afreksstefnu ÍSÍ og regluverk sjóðsins í kjölfar undirritunar samnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og ÍSÍ um stóraukið fjármagn til afreksíþrótta. Má ætla að góð sátt ríki í hreyfingunni um niðurstöður þeirrar endurskoðunar ef litið er til vinnufunda með sambandsaðilum og umræðum á Íþróttaþingi.

Hvatningarverkefnin Lífshlaupið, Hjólað í vinnuna og Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ eru öll afstaðin og tókust vel. Að baki þessum verkefnum liggur heilmikill undirbúningur og utanumhald hjá ÍSÍ en ekki síður hjá þeim sem halda utan um verkefnin í viðkomandi bæjarfélögum og fyrirtækjum. Þar skiptir hvatning og stemming miklu máli en ÍSÍ hefur átt því láni að fagna að eiga að frábæra tengiliði í þessum verkefnum sem leiða verkefnin áfram og koma þeim í framkvæmd. Fyrir það erum við þakklát.

Í haust tekur ÍSÍ þátt í Íþróttaviku Evrópu og
verður þá bryddað upp á skemmtilegum verkefnum, m.a. í samstarfi við nokkur
sérsambönd ÍSÍ. Undirbúningur fyrir Vetrar-ólympíuleikana í PyeongChang í Kóreu er einnig hafinn, svo og undirbúningur fræðsluviðburða næsta hausts og svona mætti áfram telja.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs íþróttasumars og hvetja ykkur öll til að mæta á sem flesta íþróttaviðburði sem sumarið hefur upp á að bjóða. Af nógu verður að taka.