Badmintonsamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ
Badmintonsamband Íslands hefur það að markmiði sínu að senda Afrekshóp Badmintonsambandsins á sem flest alþjóðleg mót á ári hverju. Með því móti vinna leikmenn sig upp heimslistann og eiga í framhaldinu auðveldara með að komast inn í enn sterkari mót. Heimslistann mynda tíu bestu mót keppenda á ári hverju og ræður listinn því hvaða keppendur fá keppnisrétt á stærstu mótin sem og á Ólympíuleikana.
Á fyrri hluta árs hafa keppendur í Afrekshópi Badmintonsambandsins keppt á alþjóðlegum mótum, s.s. í Króatíu, Lettlandi og Litháen, en þau eru öll á evrópsku mótaröðinni. Fleiri alþjóðleg mót eru á dagskrá síðari hluta ársins en auk þess er undirbúningur hafinn vegna þátttöku í heimsmeistaramóti liða, Thomas og Uber Cup, sem fram fer í Kazan í Rússlandi í byrjun næsta árs. Viðbótarstyrkur Afrekssjóðs ÍSÍ skiptir miklu máli gagnvart undirbúningi og þátttöku í þeim alþjóðlegu verkefnum sem sambandið tekur þátt í.
Á myndinni má sjá þau Lilju Sigurðardóttur, formann Afrekssjóðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ, Kristján Daníelsson, formann BSÍ og Margréti Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra BSÍ við undirritun samnings á milli Afrekssjóðs ÍSÍ og BSÍ.