Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

02.03.2024 - 02.03.2024

Ársþing HRÍ 2024

Ársþing Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ) verður...
09.03.2024 - 09.03.2024

Ársþing HHF 2024

Ársþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF)...
28

Staða kvenna í íþróttum

25.10.2017Forysta ÍSÍ sækir árlega fund norrænna íþrótta- og Ólympíusamtaka þar sem fjallað er um sameiginleg hagsmunamál og það sem helst brennur á íþróttahreyfingunni hverju sinni. Undanfarin ár hefur málaflokkurinn konur og íþróttir verið fyrirferðarmikill en mismunandi er á milli landa í Skandinavíu og í heiminum öllum hvernig unnið er að því að auka þátt kvenna, bæði sem iðkendur og einnig sem leiðtoga í hreyfingunni. Allar einingar íþrótta geta haft áhrif á þennan málaflokk og er víða vel unnið að jafnrétti kynjanna. Mikilvægt er að huga að öllu regluverki okkar í hreyfingunni til að skapa rými fyrir breytingar og bætingar að þessu marki. Hver íþrótt og hver eining innan íþróttahreyfingarinnar þarf að vera vakandi fyrir því að skapa og viðhalda jafnrétti í íþróttum sem og í stjórnum og ráðum.Samkvæmt lögum ÍSÍ er einn megintilgangur sambandsins að berjast gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að tefla mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar eða af öðrum toga. ÍSÍ hefur á vefsíðu sinni leiðarvísi sem hugsaður er sem leiðbeinandi verkfæri fyrir íþróttafélög/deildir þegar setja á fram jafnréttisstefnu. Undir fræðslu og jafnréttismál má finna leiðarvísinn, eða hér.

ÍSÍ undirritaði samnorræna yfirlýsingu í september 2016 þar sem því er lýst yfir að með samvinnu á milli íþrótta- og Ólympíusamtaka á Norðurlöndum munu samtökin vinna að því að efla stöðu kvenna í leiðtogastörfum í íþróttum, bæði hérlendis og erlendis.

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur sett inn í stefnuskjal nefndarinnar að á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020 verði kynjahlutfall þátttakenda jafnt. Á ráðstefnu IOC um konur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni í Evrópu sem haldin var í Vilnius í síðustu viku kom fram í ávarpi forseta IOC að yfirgnæfandi líkur eru á því að þau markmið náist að mestu eða verði um 47-49%. Ástæðan fyrir því að þetta jafnvægi næst kannski ekki fullkomlega á Ólympíuleikunum í Tókýó er vegna þess að bæði kynin tefla ekki fram keppendum í öllum hópíþróttum á leikunum. IOC hefur einnig sett sér það markmið að konur verði í 30% allra kjörinna embætta innan IOC en töluvert vantar upp á í dag til að uppfylla þetta markmið. Hjá Evrópusambandi Ólympíunefnda (EOC) er staðan enn verri. Á ofangreindri ráðstefnu í Vilnius var samþykkt að EOC er ábyrgt og leiðandi afl til að efla konur í leiðtogastörfum innan Evrópskrar íþróttahreyfingar og var lagt til að framkvæmdastjórn EOC taki upp og innleiði stefnu í jafnréttismálum með skýrum og mælanlegum markmiðum og veiti viðeigandi stuðning til þess. Einnig var lagt til að EOC hvetji Ólympíunefndir til að bjóða fram fulltrúa af báðum kynjum þegar kemur að kosningum. Engin kona er í stjórn EOC um þessar mundir þó að tvær konur starfi í stjórninni. Önnur er sjálfskipaður fulltrúi Alheimssambands Ólympíunefnda og hin var tekin inn í stjórn eftir að stjórnarmaður féll frá.

ÍSÍ hefur boðið Líneyju Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ, fram til stjórnarsetu í EOC. Kosningar fara fram á ársþingi EOC seint í nóvember. Fjórar konur bjóða sig fram til stjórnar að þessu sinni og þá mun koma í ljós hversu mikill hugur fylgir máli. Allar þessar konur hafa gríðarlega reynslu sem leiðtogar í sínu landi og ættu að geta lagt mikið af mörkum í þágu Evrópskrar Ólympíuhreyfingar.

Víða hafa sambönd og samtök sett ákvæði um kynjakvóta í lög sín, þannig að í öllum nefndum og ráðum innan þeirra vébanda þurfi að ná ákveðnu kynjajafnvægi. Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur ekki innleitt slíka kvóta í starf sitt enda mögulega erfitt að uppfylla slíkar kröfur víða um sveitir. Allar leiðir má þó skoða í viðleitni til að bæta kynjajafnréttið í hreyfingunni.

Sagt er að jafnvægi í kynjaskiptingu í stjórnum bæði félagasamtaka og fyrirtækja leiði til betri stjórnunar og betri stjórnunarhátta. Sterkar fyrirmyndir af báðum kynjum þarf til að leiða breytingar til batnaðar og mikilvægt er að efla sjálfstraust kvenna og stúlkna til að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa.
Nú er unnið að því að taka út tölfræði úr Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ um kynjaskiptingu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og einnig er verið að vinna úttekt á kynjaskiptingu í stjórnum sambandsaðila. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðurnar, taka stöðuna og nýta þann úttektarpunkt til að setja okkur ný markmið í hreyfingunni.