Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

09.03.2024 - 09.03.2024

Ársþing HHF 2024

Ársþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF)...
28

Fræðslufundur um forvarnir gegn kynferðislegri áreitni

14.12.2017

Á dögunum fór fram fræðslufundur um birtingarmyndir og forvarnir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íþróttum fyrir starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal.

Hafdís Inga Hinriksdóttir, sem er með MA í félagsráðgjöf og starfar í Bjarkarhlíð, hélt erindi og reyndi að svara spurningum eins og hvað er kynferðisleg áreitni/ofbeldi? Hvað á að gera komi það upp? Hvað segja lögin? Helstu birtingamyndir og hvað ber að varast?

Góðar umræður sköpuðust að loknu erindinu um þetta viðkvæma málefni. Í kjölfarið fengu sambandsaðilar sendan til sín póst með tenglum inn á það efni sem til er hjá ÍSÍ og þeir hvattir til að koma því áleiðis til íþróttafélaga.

Það er félögum og öðrum sambandsaðilum ÍSÍ sjálfsagt að nýta allt það efni sem er til staðar á vefsíðunni og í formi fræðslubæklinga. 

• Bæklinginn Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi í íþróttum má finna hér á vefsíðu ÍSÍ.
• Hegðunarviðmið ÍSÍ (siðareglur) geta félög haft að leiðarljósi við samningu siðareglna eða tekið þær óbreytt upp. Hegðunarviðmið ÍSÍ má nálgast hér.
• Hér má sjá Viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum.
• Hér má nálgast eyðublaðið Samþykki um uppflettingu í sakaskrá.

Besta forvörnin felst í því að fræða, eiga góðar siðareglur og að opið og jákvætt andrúmsloft ríki í félaginu. Þegar nýr þjálfari hefur störf innan félagsins er æskilegt að fá meðmæli frá félögum sem hann hefur þjálfað hjá og fara yfir siðareglur félagsins. Síðast en ekki síst skal benda á að ef grunur leikur á kynferðislegu ofbeldi eða einhverjar spurningar vakna skal hafa samband við Barnavernd í því sveitarfélagi þar sem brotið er framið ef um barn er að ræða og tilkynna í nafni félagsins. Ef um fullorðinn einstakling er að ræða skal hringt í lögreglu í síma 112.