Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
9

Ávarp forseta ÍSÍ á Íþróttamanni ársins 2017

11.01.2018

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, mennta og menningarmálaráðherra, Heiðursforseti ÍSÍ, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, fulltrúar Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, ágæta afreksfólk og aðrir góðir gestir.
Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar hátíðar Íþróttamanns ársins – sem nú er haldin í 23. sinn í góðu samstarfi við Samtök íþróttafréttamanna, RÚV og Ólympíufjölskyldu ÍSÍ en í henni eru Icelandair, Valitor, Sjóvá, Toyota, og Arion banki. Þessir aðilar gera okkur kleift að halda þetta glæsilega hóf. Vil ég færa þeim öllum þakkir ÍSÍ fyrir gott samstarf.

Í dag gerum við upp afrek íþróttafólksins okkar á árinu 2017.
Árangur þess hefur verið með ólíkindum góður undanfarin ár eins og margoft hefur komið fram á þessum vettvangi - og það er ekkert að breytast. Árangurinn er ekki bundinn við eina og eina íþróttagrein heldur má segja að flestar íþróttagreinarnar séu að skila betri árangri þó þær séu mislangt komnar í að nálgast verðlaunapalla á alþjóðlegum mótum. Uppgangurinn er augljós og sannarlega eftirtektarverður.

Ef maður horfir heilt yfir sviðið þá má segja að íþróttastarf á Íslandi sé ótrúlega öflugt. Þátttaka barna og unglinga í íþróttum er mjög mikil og er með því allra mesta sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íþróttafólkið okkar hefur náð frábærum árangri og þjóðin stendur þétt að baki þeim sem er örugglega mikilvægasti stuðningur sem hægt er að fá. Þannig varð stuðningur íslenskra áhorfenda á EM í knattspyrnu karla á síðasta ári fréttaefni út um allan heim og framganga þeirra lofuð á allan hátt.

Íþróttir eru sameiningartákn fyrir Íslendinga. Ég held að það sé hægt að fullyrða að ekkert sameini íslenska þjóð eins og góður árangur íslensks íþróttafólks á alþjóðavettvangi. Fyrir ykkur afreksfólkið okkar er að sjálfsögðu gríðarlega verðmætt að hafa þjóðina með þessum hætti að baki sér, jafnvel þó lítil sé.
Fyrir þjóðina er að sama skapi ómetanlegt að eiga afreksfólk eins og ykkur, sem vekur upp þessar tilfinningar og sameinar þjóðina, gerir hana stolta og fær hana til að fylgjast með af einlægum áhuga.


Á síðasta ári gerði ég grein fyrir samningi ÍSÍ og stjórnvalda um Afrekssjóð ÍSÍ. Sá samningur mun hafa gríðarleg áhrif á allt afreksstarf á komandi árum og nú þegar höfum við úthlutað viðbótar 100 milljónum kr. á þessu ári af þeim fjármunum sem samningurinn tryggði. Á næsta ári verða til úthlutunar úr Afrekssjóði ÍSÍ 350 milljónir kr. og á árinu 2019 verður fjárhæðin komin í 450 milljónir kr. sem verður hrein bylting fyrir afreksstarfið í landinu miðað við það sem áður var.

Í ljósi þessara gríðarlegu aukningar á fjármagni til Afrekssjóðs þá var nauðsynlegt gera miklar breytingar á reglugerð sjóðsins eins og ég lýsti hér fyrir ári síðan. Sú vinna hófst með starfi vinnuhóps sem skipaður var fyrir rúmu ári síðan og lauk með því að endurskoðuð reglugerð var samþykkt fyrir Afrekssjóð þann 11. maí síðastliðinn. Áður en reglugerðin var samþykkt var haft víðtækt samráð við sambandsaðila ÍSÍ af hálfu Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.
Aðilum var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri og var þeim öllum haldið til haga og hafðar til hliðsjónar við endanlegan frágang tillagna um breytingar á reglugerðinni. Á Íþróttaþingi hlaut málið ítarlega umfjöllun og var samstaða um þær tillögur sem þar voru kynntar.

Niðurstaðan af öllu þessu ferli við þessar mikilvægu breytingar er því sú sú að alger sátt varð um afgreiðslu málsins og íþróttahreyfingin gengur sameinuð inn í nýja tíma í stuðningi við afreksíþróttir.
Ég er ákaflega stoltur af framgangi þessa máls, þar sem útdeiling mikilla fjármuna er oftar en ekki vandasöm og veldur deilum. Að mínu mati sýnir þetta mikinn styrk íþróttahreyfingarinnar að geta tekist á við svona verkefni og lokið því með þessum hætti.
Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka þeim mikla fjölda fólks sem kom að þessu verki og tryggði þessa góðu samstöðu.

Helstu ógnir sem steðja að íþróttum í heiminum hafa orðið sýnilegri hin síðari ár og vakið menn til vitundar um að aðgerða er virkilega þörf.
Hagræðing úrslita og lyfjamisnotkun í íþróttum eru stærstu ógnir sem steðja að íþróttum í dag . Þetta eru ekki ný tíðindi en nú er tíminn til að takast af fullri alvöru á við þessa vágesti því heilindi og mögulega framtíð íþróttanna er að veði.

Það vill enginn sækja eða taka þátt í íþróttakeppni þar sem óvissa er um hvort úrslitum sé hagrætt eða árangri náð með ólögmætum lyfjum. Einnig er hætt við að styrktaraðilar hætti sínum stuðningi við íþróttir ef tilefni er til að efast um heilindi þátttakenda.
Við Íslendingar verðum að takast á við þá staðreynd að hagræðing úrslita getur auðveldlega átt sér stað hér á landi. Talið er að erlend ólögleg íþróttaveðmálafyrirtæki velti á hverju ári um 1000 milljörðum dollara eða yfir 100 þúsund milljörðum kr. svo það er greinilega eftir miklu að slægjast. Freistnivandinn er til staðar hér á landi líkt og annars staðar í heiminum og það er reyndar orðið vel þekkt að veðjað sé um íslenska íþróttaleiki á alþjóðlegum veðmálasíðum.

Við eigum verk fyrir höndum til að ná utan um þennan vanda hér á landi m.a. með því að bæta og efla það regluverk sem gæti hamlað gegn hagræðingu úrslita. Það er mikilvægt að við göngum strax til þess verks í samráði við stjórnvöld og Alþingi.

Lyfjamisnotkun hefur verið ofarlega á baugi síðustu árin. Upp komst um viðamikið samsæri í Rússlandi sem líklega er stærsta skipulagða lyfjamisferli sem vitað er um í sögu íþrótta. Víða er pottur brotinn eins og sést hefur meðal annars á fjölda þeirra sem undanfarið hafa verið sviptir Ólympíuverðlaunum vegna lyfjamisnotkunar, jafnvel mörgum árum eftir að til verðlaunanna var unnið. Rússar höfðu takmarkaðan rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í Río í fyrra vegna slíkra mála. Nú liggur svo fyrir að Rússar munu ekki fá að keppa undir flaggi Rússlands á Ólympíuleikunum í PyongChang í Suður Kóreu á næsta ári en þeir rússnesku keppendur sem geta sýnt fram á að þeir hafi ekki misnotað lyf fá þó að keppa undir hlutlausum fána.

Af þessu málum tengdum Rússlandi má vera ljóst hversu mikil áhrif ólögleg lyfjanotkun er farin að hafa á íþróttir í heiminum og hversu brothætt ástandið er þegar það ríki sem fékk flest verðlaun á síðustu vetrarólympíuleikum verður ekki með á þeim næstu vegna lyfjamisferla.

Okkur hér á Íslandi ber skylda til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessari baráttu. Það liggur fyrir að við verðum að efla okkar lyfjaeftirlit til að það geti talist fullnægjandi. Skref hafa verið stigin nú á síðustu misserum með hækkun fjárframlaga og undirbúnings stofnunar Lyfjaeftirlits Íslands með aðkomu ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Við þurfum að klára stofnun Lyfjaeftirlits Íslands nú á allra næstu mánuðum og útvega því nægilegt fjármagn til að tryggja fullnægjandi lyfjaeftirlit hér á landi.


Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt um kynferðisbrot hér á landi og þá ekki síst þau sem snúa að yngri kynslóðinni. Þessi málaflokkur er mjög mikilvægur og miklar tilfinningar bundnar því að verja börnin okkar fyrir slíku ofbeldi. ÍSÍ gaf út bækling fyrir nokkrum árum með upplýsingum um forvarnir gegn kynferðisbrotum og er hann einnig aðgengilegur á heimasíðu okkar. Þá höfum við staðið fyrir fundum og fræðslu um þetta efni. En það verður aldrei nóg að gert.

Til viðbótar við fræðslu er mikilvægt að auka við reglur sem stuðla að því eins og unnt er að þær kringumstæður skapist ekki við þjálfun, keppni og samskipti sem geta leitt til slíks ofbeldis. Það þýðir að aðlaga þarf slíkar forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi að hverri íþróttagrein þar sem þjálfun og keppni fer fram með misjöfnum hætti eftir greinum. ÍSÍ vill gjarnan koma að þessu verki með sérsamböndunum og við munum leggja okkar af mörkum til að bæta forvarnir gegn kynferðisbrotum eins og hægt er.


Umræðan sem fram hefur farið um allan heim undir merkinu metoo hefur síðan beint athyglinni að ótrúlega víðfeðmu ofbeldi gagnvart konum um allan heim og þá oft í krafti valds eða stöðu þess sem því beitir. Íþróttahreyfingin mun ekki sitja aðgerðarlaus hjá varðandi þann vanda sem þarna birtist. Við þurfum að læra af þeim skilaboðum sem þessi umræða ber með sér og bregðast við með viðeigandi hætti. Það þarf að skoða íþróttahreyfinguna með þessum gleraugum og vinna við það verður sett af stað á nýju ári. Það er og hefur verið okkar markmið að tryggja jafnrétti og jafnræði þeirra sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar og sú barátta mun halda áfram. Þau skilaboð sem metoo bera okkur eru svo sannarlega innlegg í þá baráttu.


Eins og áður vil ég þakka forystufólki – íþróttafélaga-sérsambanda og íþróttahéraða fyrir þeirra gríðarlega mikilvæga framlag til íþróttastarfsins. Þá vil ég einnig þakka þjálfurum íþróttafólksins fyrir þeirra framlag sem og aðstandendum sem oftast eru mikilvægustu bakhjarlar afreksfólksins okkar.

Það er spennandi ár framundan í íslenskum íþróttum eins og endranær. Vetrarólympíuleikarnir í Pyong Chang eru í febrúar og EM í handknattleik karla hefst eftir tvær vikur, í byrjun janúar. Þá keppir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í fyrsta skipti á HM næsta sumar. Þetta er aðeins dæmi um áhugaverðar keppnir á næsta ári en af fjölmörgu öðru verður að taka. Við getum því hlakkað til næsta árs og óskum að sjálfsögðu íþróttafólkinu okkar góðs gengis.

Ég vil að lokum nefna að næsta ár er merkis ár í sögu íslensku þjóðarinnar en þá höldum við upp á 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Hver sigur verður því enn sætari á því ári.

Takk fyrir og góða skemmtun í kvöld.